Stólarnir náðu ekki að stela stigunum í Stykkishólmi
Tindastóll tapaði fjórða leik sínum í Dominos-deildinni í gærkvöldi þegar strákarnir lutu í parket í Stykkishólmi. Snæfellingar náðu undirtökunum strax í byrjun og Stólarnir voru að elta skottið á þeim það sem eftir lifði leiks. Lokamínúturnar voru æsispennandi en Tindastólsmenn höfðu ekki erindi sem erfiði, lokatölur 94-91.
Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Jou Costa og tap staðreynd. Þetta hafði Spánverjinn að segja við Vísi.is að leik loknum:„Við þurfum að taka vörnina aðeins í gegn og vinna betur þar því við erum að fá á okkur meira en 50 stig í fyrri hálfleik og yfir 90 stig í leiknum. Að vinna leiki sem eru með þessum tölum er ekki auðvelt þannig að við vinnum betur í varnarleiknum okkar,"
„Við vissum töluvert um heimaliðið [Snæfell] og hvernig þeir geta unnið leiki, hvernig þeir spila og skora og höfðum farið vel yfir það í vikunni. Svo klára þeir okkur. Það voru margir góðir hlutir í vörn og fráköstum en á mikilvægum augnablikum í leiknum fá lykilmenn þeirra galopin skot sem þeir klára og gerði þetta ómögulegt. Við reyndum allt í varnartilbrigðum en höfðum ekki nema fjórar æfingar saman til að slípa fyrir þennan leik og það er ekki nægur tími til að stilla þetta af en við förum í mikla vinnu núna og sjáum til eftir tvær til þrjár vikur hver við verðum þá.“
Jerome Hill var bestur í liði Tindastóls í gær en kappinn gerði 24 stig og tók 16 fráköst. Vonandi er að færast fítonskraftur í kappann. Flake var í fínu formi og gerði 17 stig. Lewis var ekki að finna sig framan af leik og setti aðeins niður eitt skot í opnum leik í fyrri hálfleik.
Það er líklegt að einhver tími sé í að lið Tindastóls nái flugi í deildinni og því aldrei mikilvægara en nú að standa þétt við bakið á strákunum. Næsti leikur er hér heima í Síkinu föstudaginn 27. nóvember en þá kemur topplið Keflvíkinga í heimsókn en þeir Suðurnesjapiltar eru taplausir í deildinni, unnu nú síðast Íslandsmeistara KR.
Stig Tindastóls: Hill 24, Flake 17, Lewis 14, Pétur 9, Helgi Viggós 8, Arnþór 7, Svavar 5, Pálmi 3, Hannes 2 og Viðar 2.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.