Sterkur sigur Stólanna á Haukum í hörkuleik
Tindastóll og Haukar mættust í fjörugum og sveiflukenndum leik í Síkinu í kvöld og líkt og vanalega þegar þessi lið mætast þá var leikurinn æsispennandi fram á lokamínútu leiksins þegar molnaði undan sóknarleik gestanna sem settu síðan Sigtrygg Arnar ítrekað á vítalínuna þar sem kappinn feilaði ekki, setti niður sex víti á síðustu mínútunni. Það var síðan Cairdarinn sem innsiglaði sigur Tindastóls með flautuþristi. Lokatölur 91-78.
Tindastólsmenn voru eitthvað værukærir í upphafi leiks og Haukarnir röðuðu niður stigum. Þeir komust í 2-12 og Martin ekki sáttur með sína menn og öskraði í þá smá krafti. Hester tók það einna helst til sín, kappinn gerði ellefu fyrstu stig Stólanna og síðan jafnaði Pétur leikinn með þristi, 14-14. Leikurinn var síðan í jafnvægi þangað til Hannes Ingi kom inn í lok fyrsta leikhluta og negldi niður tveimur þristum upp á punt – þar með talið flautuþristi. Staðan 24-19 að loknum fyrsta leikhluta.
Það tók lið Tindastóls eina og hálfa mínútu að komast á blað í öðrum leikhluta en þá voru Haukarnir líka komnir með forystu. Arnar gerði þá átta stig og Caird tvö næstu tvær mínúturnar og staðan 34-27. Þá kom þessi kafli sem Stólarnir hafa verið að fínpússa af og til – það er að segja stigalausi óþarflega langi slæmi kaflinn. Skyndilega datt allur botn úr leik strákanna og þeir gerðu ekki eitt stig fram að hléi, eða í sex og hálfa mínútu. Vörnin var þó skárri þannig að sem betur fer stungu Haukarnir ekki af, en þeir náðu átta stiga forskoti fyrir hlé. Staðan 34-42.
Pétur var kominn með þrjár villur fyrir hlé en hann stjórnaði liði sínu vel í síðari hálfleik. Nú átti augljóslega að spila Caird betur inn í leikinn og hann setti niður þrist strax í byrjun þriðja leikhluta. Haukar svöruðu þó öllum aðgerðum Stólanna og eftir þriggja mínútna leik höfðu þeir náð tíu stiga forystu, 39-49, en þá fékk Paul Jones III dæmda á sig óíþróttamannslega villu og í kjölfarið snérist leikurinn á punktinum því næstu fimm mínútur gerðu Tindastólsmenn 20 stig en Haukar 1!
Staðan var 63-55 þegar fjórði leikhluti hófst og enn á ný kom sveifla í leikinn því Haukar jöfnuðu 63-63 og Martin tók leikhlé. Nú átti að koma boltanum inn á Hester í teig Haukanna og það gekk ágætlega því kappinn gerði hverja körfuna af annarri af miklu harðfylgi. Gestirnir gáfu þó ekki þumlung eftir og þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka var jafnt, staðan 73-73, eftir að Finnur Magnússon hafði farið mikinn í liði Hauka. Þá setti Arnar niður þrist og í næstu sókn meiddist Kári Jóns, sem hafði reyndar átt erfitt uppdráttar í síðari hálfleiknum. Hann hvarf af velli og inn kom Emil Barja. Hester gerði næstu körfu fyrir Tindastólsliðið sem náði nú yfirhöndinni og það fór að bera á örvæntingu hjá gestunum. Þeir voru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og þegar hálf mínúta var eftir minnkaði Finnur muninn í fjögur stig, 82-78, með þristi. Þá kom að vítaþætti Arnars sem Haukar brutu ítrekað á eftir að sóknir þeirra klikkuðu og það var síðan Caird sem setti súkkulaðið á sigursnúðinn með þristi í blálokin.
Eins og oft áður í vetur var leikur Stólanna ýmist frábær eða hörmulegur og það hlýtur að vera takmarkið hjá Martin og félögum að fækka eða stytta slæmu kaflana. Sigurinn í kvöld var engu að síður frábær því Haukar hafa haft lag á því að svekkja Stólana í gegnum tíðina. Þeir eru enda með gott lið og mikilvægt að ná þetta stórum sigri gegn þeim.
Hester átti frábæra spretti í leiknum og þá sérstaklega í byrjun leiks og í fjórða leikhluta, einkum og sér í lagi þegar Finnur og Jones voru komnir í villuvandræði. Hester gerði 28 stig og tók níu fráköst en kappinn þarf að bæta sig á vítalínunni. Sigtryggur Arnar átti flottan leik, skilaði 26 stigum og stal fjórum boltum líkt og Pétur sem var með 10 stig og sjö stoðsendingar í kvöld. Caird datt í gang í síðari hálfleik og endaði með 18 stig. Helgi Rafn og Axel skiluðu varnarhlutverkum sínum vel en það skorti á framlag fleiri leikmanna í sóknarleiknum en aðeins sex komust á blað hjá Stólunum í kvöld.
Næsti leikur Tindastóls í Dominos er í Keflavík þann 9. nóvember en áður spila strákarnir við lið Vals í Maltbikarnum á Hlíðarenda þann 6. nóvember.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.