Sjötíuþúsund Frakkar áttu ekki roð í hvatningarhróp okkar Íslendinga
Evrópumeistaramótið í knattspyrnu lauk um helgina þegar Portúgalir hömpuðu Evrópumeistaratitlinum í fyrsta sinn. Frakkar þóttu sigurstranglegir fyrir leik og komu úrslitin mörgum á óvart, enda áttu þeir talsvert betri leik gegn Íslandi en Portúgalar. Þóra Kristín Þórarinsdóttir var stödd á á leik Íslands og Frakklands þann 3. júlí og segir stemninguna í áhorfendapöllunum hafa verið magnaða þrátt fyrir mótbyr í fyrri hálfleik.
Það er mjög erfitt að lýsa því. Stemningin var mögnuð og allir Íslendingarnir sungu og hvöttu strákana okkur allan leikinn og settust aldrei niður. Þrátt fyrir mörkin sem við fengum á okkur þá héldum við hvatningunni ótrauð áfram og sungum bara hærra ef eitthvað er. Svo var frábært að verða vitni að fagnaðarlátunum þegar strákarnir skoruðu, þó að staðan væri 4-1 fyrir Frakklandi þá fögnuðum við eins og við hefðum verið að vinna mótið. Mjög einlægt og frábært.
Bjóstu við þessari niðurstöðu?
Nei, ég hafði mikla trú á að strákarnir myndu sigra leikinn og þess vegna kom lokastaðan mér verulega á óvart, en þessi tvö mörk sem þeir skoruðu voru frábær og við skulum ekki gleyma því að Ísland er eina þjóðin sem hefur skorað 2 mörk á móti Frökkum á þessu móti.
Hvað var eftirminnilegast?
Allur dagurinn verð ég að segja. Að koma til Parísar þar sem búa margar milljónir manna og líða eins og maður sé á Íslandi er ólýsanlegt. Hvort sem það var fyrir leikinn þar sem þúsundir Íslendinga komu saman niðrí bæ eða á lestarstöðinni og í sjálfri lestinni á leiðinni á leikinn þá var maður alltaf umkringdur syngjandi Íslendingum. Maður varð ekkert smá spenntur og stemningin var geðveik. Það var líka mjög eftirminnilegt að syngja bæði Ferðalok og íslenska þjóðsönginn, maður fékk smá tár í augun.
Hver var besti maður leiksins að þínu mati?
Ég get engan veginn svarað þessari spurningu, því mér fannst allt liðið best.
Getur þú sagt mér aðeins frá stemningunni í íslenska áhorfendaskaranum og hvernig var eftir leikslok?
Íslendingarnir á leiknum voru eitthvað um 10 þúsund og Frakkarnir eitthvað um 70 þúsund en þeir áttu samt ekki roð í hvatningarhróp okkar Íslendinga. Þegar þeir tóku sig allir saman og byrjuðu að hrópa þá auðvitað yfirgnæfðu þeir okkur um leið, en munurinn á okkur og þeim var sá að við stóðum allan tímann og sungum, en þeir nenntu því ekki heldur komu bara með svona syrpur og létu vel í sér heyra þegar Frakkarnir skoruðu. Svo eftir leikinn þá stóðu Íslendingarnir hátt í klukkutíma og sungu og klöppuðu á meðan Frakkarnir drifu sig strax út af leikvanginum.
Ertu ánægð með að hafa skellt þér?
JÁ! Ég er svo ánægð með að hafa skellt mér. Þessi ferð er mjög eftirminnileg. Þetta var skyndiákvörðun, en við pöntuðum flug bara á sömu sekúndu og Ísland vann England. Við fengum svo ekki miða strax svo það var örlítið stress en á endanum fengum við miða.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.