Sigur í rennblautum leik á Seyðisfirði - Myndband

Stefán Arnar Ómarsson Mynd: ÓAB.
Stefán Arnar Ómarsson Mynd: ÓAB.

Knattspyrnulið Tindastóls endaði tímabilið í 2. deildinni með blautum sigri á Seyðisfirði sl. laugardag er Huginn var heimsóttur. Vallaraðstæður voru ansi slæmar þar sem völlurinn var rennandi blautur og í raun hættulegur. Það fór þó þannig að sjö mörk voru skoruð og fóru Stólarnir með sigur af hólmi og öll stigin heim.

Ragnar Þór Gunnarsson opnaði markareikninginn strax á 9. Mínútu. Korteri seinna jafnaði Gonzalo Zamorano Leon leikinn með marki úr víti.          Fimm mínútum síðar komst Huginn yfir með marki Nik Anthony Chamberlain en Jack Clancy jafnaði fyrir Stólana á 42. mínútu. Sá var drjúgur á loka mínútum fyrri hálfleiks því hann bætti þriðja markinu við rétt aður en dómarinn flautaði til hálfleiks.

Gonzalo Zamorano Leon lék sama leik og í upphafi fyrri hálfleiks með því að skora sitt annað mark þegar um 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.  Það var svo Tanner Sica sem tryggði Stólunum sigurinn, tíu mínútum fyrir leikslok og lokastaðan Huginn 2, Tindastóll 4.

Tindastóll endaði í 6. sæti með 34 stig, jafnmörg og Huginn og Afturelding sem voru með betra markahlutfall. Virkilega góður árangur hjá strákunum og ekki síður þjálfaranum, Stefáni Arnari Ómarssyni, sem kom inn á miðju sumri eftir að stjórn deildarinnar lét þá Stephen Walmsley og Cristofer Harrington fara.

Stefán Arnar segist ekki viss með  galdurinn við viðsnúningi liðsins. „Veit ekki með galdur, en þetta var auðvitað erfitt verk í byrjun. Sterkir erlendir leikmenn yfirgáfu liðið um það leiti sem ég tók við. Við fengum til okkar þrjá erlenda leikmenn en tveir af þeim urðu okkur gríðarleg styrking. Einnig komu til baka nokkrir gamlir Tindastólsleikmenn og einn af þeim, Bjarki, sem var aðstoðarþjálfari ásamt því að koma með sína ró og skipulag inná völlinn. Þessi viðsnúningur byrjar í raun í þriðja leiknum eftir að ég tek við. Bjarki kominn inn í þetta, nýir útlendingar og við byrjum að spila á okkar styrkleikum og sama upplegg og í fyrra, sem skilaði okkur 17 sigurleikjum í röð. Það hélt áfram þarna og vorum við taplausir í síðustu 7 leikjum,“ segir Stefán en liðið vann sex sigra og gerði eitt jafntefli.

Meira verður rætt við Stefán Arnar í næsta Feyki sem kemur út næsta miðvikudag.

Meðfylgjandi er myndbönd sem sýnir aðstæðurnar á Seyðisfirði í umræddum leik.

 

 

Posted by Stefán Arnar Ómarsson on 25. september 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir