Rúnar Már fer til Grasshopper í Sviss
Skagfirðingurinn Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur skrifað undir samning við svissneska félagið Grasshopper til þriggja ára. Rúnar hefur leikið með sænska liðinu Sundsvall eftir að hafa verið í íslenska landsliðshópnum á EM í Frakklandi. Mbl.is greinir frá.
Hinn 26 ára gamli Rúnar Már er alinn upp hjá Tindastóli en hann hefur einnig leikið með Ými, HK og Val á Íslandi. Þá var hann hálft tímabil hjá Zwolle í Hollandi árið 2013 en fór svo til Sundsvall síðar það ár. Rúnar byrjaði leiktíðina í Svíþjóð afar vel og hefur skorað sex mörk og lagt upp tvö í tólf leikjum fyrir EM.
Í frétt mbl.is er haft eftir sænska blaðinu Expressen og þar segir að kaupverðið nemi 3 milljónum sænskra króna, sem jafngildir 317 milljónum íslenskra króna. Rúnar mun frá treyju númer 7 hjá svissneska liðinu.
Grasshopper endaði í 4. sæti svissnesku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, 30 stigum á eftir Basel, með Birki Bjarnasyni innan sinna raða, en þeir unnu deildina.
Grasshopper leikur í forkeppni Evrópudeildarinnar og mætir þar sigurvegaranum úr rimmu KR og Glenavon frá Norður-Írlandi í 3. umferð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.