Mikilvægur leikur Stólastúlkna í Eyjum í dag
Stelpurnar í Tindastól eiga leik gegn ÍBV í Bestu deildinni klukkan fimm í dag en ferðalagið til Eyja hófst í gær og því um mikið ferðalag er að ræða og fórnir færðar hjá leikmönnum. Liðin eru á svipuðum slóðum á stigatöflunni Eyjastúlkur í 7. sæti með sex stig eftir tvo sigra en Stólar sæti neðar með einn sigur og tvö jafntefli. Feykir hafði samband við Donna þjálfara og spurði út í ferðina og leikinn.
„Ferðalagið gekk mjög vel. Við fórum frá Króknum í gær um klukkan ellefu og fórum í Herjólf klukkan 18 svo við vorum komin klukkutíma síðar í Eyjuna. Það er auðvitað mismikið mál fyrir leikmenn að fá frí í vinnunni en heilt yfir gekk nokkuð vel að fá frí.“
Nú hefur verið mikið álag á liðinu undanfarið en Donni segir stöðuna nokkuð góða á hópnum og allar klárar fyrir utan Hrafnhildi sem er að jafna sig eftir meiðslin sem hún hlaut í leiknum við Stjörnuna.
ÍBV er á svipuðum slóðum og Stólar, hvernig munt þú nálgast leikinn og hverjar telur þú líkur á sigri vera?
"Okkar líkur eru nokkuð góðar að okkar mati. Þetta eru nokkuð svipuð lið og á svipuðum stað. Við höldum áfram að byggja ofan á okkar leik og að bæta okkur jafnt og þétt.“
Flestir Eyjamenn eru líklega með hugann við úrslitakeppnina í handboltanum en oddaleikurinn fer fram í kvöld en Donni er ekki á því að Eyjakonur fái lítinn stuðning úr stúkunni í dag.
„Ég myndi halda þvert á móti að þær ættu að fá mikinn stuðning þar sem það er stutt á milli svæðanna og stuðningssveitin ætti að eiga auðvelt með að græja báða leiki. Við munum halda áfram að gera okkar allra besta og bæta okkur. Við vonum að við fáum ennþá betri stuðning í næsta heimaleik því það hjálpar stórlega þegar það er góð stemning i kringum liðið,“ segir þjálfarinn og Feykir sendir að sjálfsögðu baráttukveðjur til Eyja. Með sigri nær Tindastóll a.m.k. að koma sér í 7. sætið og jafnvel þan 6. þar sem Stjarnan sem situr í 5. sæti og Keflavík í því 6. eigast einnig við í dag en bæði lið eru með 7 stig.
Hægt verður að fylgjast með leiknum á Stöð sport 5. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.