María Finnbogadóttir náði ágætum árangri á HM unglinga
Nú hefur María Finnbogadóttir skíðakona úr Tindastóli lokið keppni á HM unglinga í Aare í Svíþjóð en þangað fór hún ásamt nokkrum öðrum unglingum og keppti í Alpagreinum fyrir Íslands hönd. Keppendur voru frá 47 löndum. Þátttakendur voru fæddir á árunum 1996-2000 og þar sem María er fædd árið 2000 var hún á yngsta keppnisárinu. Hún stóð sig með sóma og varð í 56. sæti í stórsvigi og 35. sæti í svigi.
Keppendur voru rétt tæplega 100 talsins í báðum greinum. Auk hennar kepptu þær Katla Björg Dagbjartsdóttir fædd 1999 og Andrea Björk Birkisdóttir, fædd 1998 fyrir Ísland. Katla Björg varð í 63. sæti í stórsvigi og 36. í svigi og Andrea Björk varð í 66. sæti í stórsvigi en lauk ekki keppni í sviginu.
Framundan hjá Maríu er Íslandsmótið á skíðum sem fram fer í Hlíðarfjalli við Akureyri 31. mars – 2. apríl nk. og síðan mun hún taka þátt í FIS-móti í Reykjavík 4.-5. apríl áður en hún heldur aftur út til Austurríkis.
/AJG
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.