María Dögg í úrtakshóp – skoraði tvö mörk á móti Haukum
María Dögg Jóhannesdóttir, leikmaður 3. flokks kvenna í Tindastól hefur verið valin í úrtakshóp 16 ára landsliðs Íslands. Jörundur Áki þjálfari liðsins valdi 29 leikmenn sem munu æfa í Reykjavík 16. og 17. júní. Í kjölfarið verður síðan valinn hópur til þess að spila á Norðurlandamóti u-16 kvenna í Finnlandi 29. júní - 7. júlí.
María Dögg er 16 ára gömul og er lykilmaður í 3. flokki kvenna en hún hefur einnig leikið einn leik með meistaraflokki Tindastóls. Hún skoraði tvö mörk í sigri 3. flokks gegn Haukum sl. laugardag en sá leikur fór fram syðra og endaði 4-1 fyrir Tindastól sem hafði mikla yfirburði í leiknum. Eyvör Pálsdóttir og Karen Lind Skúladóttir skoruðu sitt markið hvor.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.