Lukku-Láki í liði með Magna

Þjálfari Tindastóls, Stephen Walmsley, sefur sennilega ekki vel í nótt eftir að hafa tekið Gerrard-fall á lokamínútunni gegn Magna.  MYND: ÓAB
Þjálfari Tindastóls, Stephen Walmsley, sefur sennilega ekki vel í nótt eftir að hafa tekið Gerrard-fall á lokamínútunni gegn Magna. MYND: ÓAB

Það er löngu ljóst að sanngirni og knattspyrna fara ekki alltaf saman. Í dag máttu Stólarnir horfast í augu við þriðja tapið í röð í 2. deildinni og að þessu sinni var um að ræða rán og það um hábjartan dag. Magnamenn áttu ekki mikið skilið á Sauðárkróksvelli en þeir fengu óvænta gjöf þegar þeir fengu boltann á silfurfati á 92. mínútu og gerðu sigurmark leiksins. Lokatölur 1-2 fyrir Grenvíkinga gegn lánlausum Tindastólsmönnum.

Það voru kjöraðstæður til knattspyrnuiðkunar á Króknum í dag og leikur Tindastóls og Magna var ágætlega spilaður. Gestirnir, sem voru í efsta sæti 2. deildar fyrir leikinn, fóru þó betur af stað á meðan að heimamenn virkuðu spenntir og áttu margar mislukkaðar sendingar fyrsta stundarfjórðunginn. Það endaði líka með því að gestirnir náðu að refsa en það gerði Kristinn Þór Rósbergsson sem óð upp vinstri kantinn eftir smáútsölu og hann setti boltann í fjærhornið hjá Brentton. Stólarnir náðu að koma sér betur inn í leikinn eftir þetta og Kenneth Hogg jafnaði á 25. mínútu eftir fallegt spil í gegnum vörn Magna. Fram að hléi voru það Stólarnir sem ógnuðu meira en leikurinn í jafnvægi. Staðan 1-1 í hálfleik.

Gestirnir reyndu að pressa Tindastólsmenn í upphafi síðari hálfleiks en Stólarnir náðu að halda boltanum ágætlega og reynda að vera skynsamir. Smá saman náðu heimamenn síðan góðum tökum á leiknum og ógnuðu marki Magna hvað eftir annað. Þeim gekk þó ekki nógu vel að skapa sér dauðafæri en bæði Ragnar Þór og Kenneth fóru illa með nokkra möguleika. Það leit þó allt út fyrir að liðin skiptu með sér stigunum þegar lukkan gekk í lið með gestunum. Neil Slooves fékk boltann hægra megin við vítateig Tindastóls og renndi síðan boltanum á Stephen þjálfara Walmsley sem var ekki undir neinni pressu framan við vítateiginn. Sendingin var ágæt en Stephen missti fótanna og steinlá síðan þegar hann reyndi að snúa á eftir boltanum. Lukku-Láki þeirra Magnamanna, Pétur Heiðar Kristjánsson, náði boltanum og reyndi skot að marki utan teigs. Boltinn fór í bláhornið en kannski hefði Brentton átt að gera betur í markinu því skotið virkaði ekki verulega fast, en hnitmiðað var það. Stólarnir höfðu varla tíma til að taka miðju því leiktíminn rann út skömmu eftir þetta.

Annað svekkelsis tap á heimavelli staðreynd og það er að verða slæmur ávani hjá Stólunum að fá mark eða mörk á sig á lokamínútum leikja sinna. Í fyrstu umferð jöfnuðu Sindramenn á 95. mínútu, þar á eftir jafnaði Fjarðabyggð á 79. mínútu, Njarðvíkingar sigruðu eftir að skora mörk á 89. og 90. mínútu, Afturelding bætti við marki síðast á 92. mínútu og í dag skoruðu Grenvíkingar sigurmark á 92. mínútu!

Tindastólsliðið lék nefnilega ágætlega í dag þó fyrsti stundarfjórðungurinn hafi verið slæmur. Þeir áttu í það minnsta ekki skilið að tapa og voru í raun betra liðið heilt yfir. Kenneth Hogg var góður, Hólmar Daði hefur líklega átt einn besta leik sinn fyrir Stólana og notaði boltann vel. Benni sýndi lipra takta en mikið væri nú gaman að sjá hann stundum losa boltann í fyrstu snertingu. Þá átti Ísak fínan leik í hægri bakverði og hafði ágætis taumhald á Victor Da Costa sem hefur farið á kostum í liði Magna það sem af er sumri.

Nú mega Stólarnir ekki missa trúna á verkefninu. Það sást í dag að liðin í deildinni eru jöfn og það ættu allir að geta unnið alla. Það styttist í fyrsta sigurleikinn. Áfram gakk og áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir