Leikir á gervigrasinu í kvöld og á morgun
Tindastóll tekur á móti liði Selfoss á Laugardaginn kl. 16:00 í 16 liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna. Liðin mættust í deildinni fyrir 10 dögum en þá fóru leikar 3-1 fyrir Selfoss.
Tindastólsstelpur unnu seinasta leik sem fram fór á miðvikudaginn 1-0 gegn Stjörnunni og koma því með sjálfstraust inn í þennan leik.
„Við erum öll mjög vel stemmd fyrir þennan leik, þetta er mjög krefjandi verkefni en á sama tíma mjög skemmtilegt og allir eru þvílíkt spenntir“, sagði Donni í samtali við Feyki.
Ertu búinn að ná stelpunum niður eftir sigurinn í seinasta leik?
Já og nei, ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að halda okkur í góðri stemningu en að sama skapi vitum við alveg að þetta verður hörku leikur og verkefni. Við ætlum að reyna halda sama dampi og stemningu og gera þetta eins og við gerðum síðast.
Hver er staðan á leikmannahópnum?
Hún er ágæt, það er gríðarlega mikið álag á stelpunum núna og verður þessa vikuna. Hrafnhildur Björns fór út af meidd í hálfleik í síðasta leik og hún verður ekki tilbúin í þennan leik. Aðrar eru að verða klárar.
Að lokum hvetur Donni alla til að fjölmenna á völlinn og segir að liðið þurfi á öllum stuðningi að halda. „Þetta verður ógeðslega erfiður leikur, þær unnu okkur síðast og við erum ótrúlega spennt að fá góðan stuðning og fullt af fólki í stúkuna.“
Strákarnir taka á móti Skallagrím
Í kvöld klukkan 19:15 mæta síðan strákarnir liði Skallagríms í þriðju umferð fjórðu deildar karla. Tindastóll hefur unnið einn leik og tapað einum það sem af er móti, á meðan Skallagrímur hafa tapað báðum sínum leikjum.
Feykir hvetur fólk til að mæta á völlinn um helgina og styðja liðin okkar!
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.