Körfuboltamenn farnnir að spretta úr spori
Annar æfingaleikur Tindastóls fyrir komandi keppnistímabil í körfunni var spilaður í dag og stór hópur stuðningsmanna Stólanna mætti í Síkið til að horfa á sína menn leggja ÍR í parket af öryggi. Lokatölur urðu 86-62 en Chris Caird var stigahæstur leikmanna í dag með 25 stig.
Stólarnir höfðu fyrir nokkrum dögum spilað við Þór á Akureyri og unnu þar góðan sigur. Það var mikil barátta í leik Tindastóls og ÍR og sóknarleikur liðanna eðlilega ekki verulega slípaður. Það er ljóst að breiddin í liði Stólanna verður mikil í vetur og það ætti að gefa Israel Martin möguleika á að spila fantavörn og geta rúllað stórum hópi ferskra leikmanna. Caird (25) og Pétur (18) voru stigahæstir en næstir komu nýju mennirnir Arnar og Axel sem eiga eftir að styrkja liðið mikið. Í lið Stólanna í dag vantaði Hester, Viðar og Helga Margeirs.
Lið Tindastóls náði fljótt yfirhöndinni í leiknum í dag en ÍR-ingar voru skammt undan í fyrsta leikhluta. Eftir að Sveinbjörn Claessen fékk tvö tæknivíti fyrir mótmæli í öðrum leikhluta, og þannig útilokaður frá leiknum (fékk reyndar að taka þátt í síðari hálfleiknum), þá náðu Stólarnir 10-12 stiga forystu og voru níu stigum yfir í hálfleik. Þeir voru snöggir að auka muninn í þriðja leikhluta eftir ágæta rispu frá Caird og munurinn yfirleitt þetta 20-26 stig í fjórða leikhluta.
Fyrsta umferð Dominos-deildarinnar hefst 5. október en þá mætir einmitt lið ÍR í heimsókn á Krókinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.