Komið að leiðarlokum :: Helgi Rafn Viggósson fyrirliði Tindastóls í viðtali
Það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni að brotið var blað í sögu íþróttanna, ekki bara í Skagafirði, heldur á Norðurlandi vestra, þegar Tindastóll landaði Íslandsmeistaratitlinum í körfubolta sl. fimmtudag í Origo höllinni á Hlíðarenda, heimavígi Vals sem þá var handhafi allra titla efstu deildar. Mikla vinnu og mörg tonn af svita og blóði hefur kostað að ná þessum eftirsótta árangri og það veit fyrirliðinn manna best, Helgi Rafn Viggósson, sem nú hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Feykir heyrði í kappanum daginn eftir oddaleikinn mikla.
Það þykir alltaf eftirsóknarvert að vinna sér inn heimavallarréttinn í lok deildarkeppninnar en hann fá fjögur efstu liðin og þýðir þá að fyrsti leikur hverrar seríu er á heimavelli þess liðs en mótherjar þeirra eru liðin frá 5. til 8. sæti. Stólar enduðu í 5. sæti og léku því við Keflavík, sem voru í því fjórða. Síðar léku Stólar gegn Njarðvík, sem endaði í öðru sæti deildarinnar, og því með heimavallarréttinn rétt eins og Keflavík, en báðar rimmurnar enduðu með þremur sigrum Tindastóls gegn einum. Þá voru það Valsarar sem sem höfðu fengið deildarmeistaratitilinn og höfðu því engar áhyggjur með sinn heimavallarrétt en eins öfugsnúið og það hljómar þá unnust allir leikir þeirrar seríu á útivöllum sem er mjög sjaldgæft en í karlaboltanum gerðist það síðast árið 2010 þegar Snæfell varð Íslandsmeistari og lék þá gegn Keflavík til úrslita.
Skagfirðingar eiga einn góðan og talnaglöggan stuðningsmann, Rúnar Birgi Gíslason, sem segir á Facebook-síðu sinni að fyrsti leikur í einvígi Vals og Tindastóls var sá 151. í lokaúrslitum karla á Íslandi en jafnframt sá fyrsti þar sem enginn leikmaður, þjálfari eða dómari hafi komið frá Keflavík eða Njarðvík.
En snúum okkur þá að viðmælandanum, Helga Rafni, sem spurður er hvernig liðið nálgaðist úrslitaleikinn sem fram fór á heimavelli Vals sl. fimmtudag og hvort menn hafi haft trú á að klára dæmið.
„Menn höfðu allan tímann trú á því. Við vorum búnir að fara þangað þrisvar sinnum yfir tímabilið og vinna alla þá leiki og menn höfðu bullandi trú á því að geta klárað þetta í Origo höllinni,“ segir Helgi og neitar því að nokkur hafi verið stressaður, eða farið á taugum, þó illa hafi byrjað en Valsarar komust í vænlega stöðu í upphafi leiks.
„Nei, það þýðir ekki neitt. Það er bara næsta „play“ og ég held að það hafi bara hjálpað okkur að lenda undir. Við tókum áhlaup í leik fjögur og virkaði ekkert rosalega vel, þannig að það var ágætt að þetta snérist við í lokaleiknum og að ná að klára þetta undir lokin á vítalínunni var bara frábært.“
Lokasekúndurnar sýndu þeim sem á horfðu að allt getur gerst og leikur er ekki búinn fyrr en lokaflautið gellur. Tindastóll tveimur stigum undir þegar Keyshawn Woods gerir sig líklegan til að skjóta þriggja stiga skoti, þegar Hjálmar Stefánsson brýtur á honum og fær þrjú vítaskot. Ef aðeins eitt skot færi niður tapast leikur, tvö skot tryggir framlengingu en öll þrjú skotin þýðir sigur. Keyshawn var fullur sjálfstrausts enda búinn að tala við sinn guð sem vakti yfir honum á þessari stundu. Ef ekki hefði verið brotið á okkar manni er ómögulegt að segja hvort þriggja stiga skotið hefði ratað í körfuna og úrslit orðið Vali í vil.
„Já, það er stutt á milli hláturs og gráturs,“ segir Helgi og fullyrðir að taugarnar hjá honum hafi verið mjög góðar. „Ég vissi bara einhvern veginn að hann myndi setja öll þrjú vítaskotin ofan í. Hann hafði verið þannig í leiknum, búinn að setja stóran stemmningþrist og ég hafði mjög góða tilfinningu fyrir þessum skotum hjá honum. Ég var ekkert rosalega stressaður yfir því þegar hann steig á punktinn.“
Helgi hefur fylgt þessum draumi í mörg ár sem nú loksins er orðinn að veruleika og því er hann beðinn um að lýsa ferlinu sem einkennist af gleði og stundum vonbrigðum.
„Þetta er einstök tilfinning, að finna að þetta væri loksins í höfn, þar sem búið er að reyna að berjast fyrir þessu undanfarin ár, að þetta væri loksins komið hjá okkur. Samheldnin og gleðin í liðinu og hópnum hjá okkur bara geggjuð. Það bjóst enginn við þessu um jólin, að þetta myndi fara í þessa áttina hjá okkur. Að fá Pavel inn og hans handbragð, hvernig hann nálgast leikinn og færir okkur ákveðna trú og ákveðna yfirvegun bæði í klefanum og inni á vellinum og ná svo að klára þetta núna eftir þessa fáu mánuði þar sem við þurftum að skipta algjörlega um gír. Þannig að þessi vetur er búinn að vera mikill rússíbani, ótrúlegt tímabil og að enda þetta svona. Eins fyrir stuðningsmenn, bakhjarla körfuboltans, alla sjálfboðaliðana, konur leikmanna og fjölskyldur. Þetta er risastórt dæmi fyrir okkur og þennan risastóra klúbb sem Tindastóll er.“
Það hefur vakið athygli hvað Pavel hefur gert lítið úr sínum hlut og næstum því sagt að hann hafi einungis mætt í klefann og sagt strákunum að spila bara sinn körfubolta og hafa gaman. Helgi segir að það sé kannski ekki svo einfalt en Pavel hafi einfaldað hlutina og eiginlega sleppt beislinu fram af mönnum. „En hann kemur samt með ákveðna sigurtrú inn í klefann enda gert þetta mörgum sinnum áður. Menn trúðu því bara að þetta væri hægt og voru klárir í þetta verkefni með honum og svo fór sem fór.“
Góður staður til að stoppa á
Það var ljóst áður en oddaleikurinn var flautaður á að um síðasta leik Helga Rafns á ferlinum væri að ræða og ljóst að margir eigi eftir að sakna hans sterka karakters á vellinum. „Já, ég sagði strákunum frá því á síðustu æfingu fyrir leik að þetta væri mín síðasta æfing og þá síðasti leikurinn á ferlinum og sem betur fer endaði þetta bara vel. Það er ekki hægt að biðja um betra, það er nú bara þannig,“ segir Helgi sem nú ætlar að huga að fjölskyldunni sem stutt hefur fyrirliðann öll þessi ár sem farið hafa í boltann. Aðspurður segist hann ekki hafa hugmynd um hvenær fyrsti meistaraflokksleikur hans fór fram né nokkra tölfræði.
„Já nú snýr maður sér að fjölskyldunni. Ég hef verið í Drangey á sumrin og svo hefur karfan tekið við á haustin og þannig hefur þetta verið undanfarin tuttugu og eitthvað ár og nú ætla ég aðeins að fara að sinna fjölskyldunni. En þó maður sé hættur að spila þá hættir maður ekki að vinna fyrir klúbbinn, það er nú bara þannig.
Það má með sanni segja að stórfjölskylda Helga sé mikið í kringum þetta sport því systir hans, Sigríður Inga, hefur verið ötul í alls kyns vinnu og uppákomum, mamman þvær búningana, pabbi í TV-inu og það sem einnig er skemmtilegt að minnast á þá var það nafni hans og afi, Helgi Rafn Traustason fv. kaupfélagsstjóri, sem er upphafsmaður körfuboltans á Sauðárkróki.
„Já, þetta er búið að vera mikið í kringum mann, sem er náttúrulega mjög skemmtilegt og mikil forréttindi að starfa fyrir þennan klúbb og þessa frábæru áhorfendur og stuðningsfólk sem Tindastóll á um allan heim. Framtíðin er björt fyrir Tindastól og þetta er góður staður til að stoppa á og láta einhverja aðra taka við keflinu.“
Helgi segir það einnig skemmtilegt að nafni hans og afi skyldi hafa komið þessu á á sínum tíma og fá svo að taka á móti bikarnum nú 60 árum eftir að reglulegar æfingar hófust í körfuknattleik á vegum UMF. Tindastóls. „Frábær stund. Þetta er frábært lið og stuðningsmenn og allir bakhjarlar körfuboltans á Sauðárkróki mega vera stoltir af þessum titli.“
3147 stig, 2404 fráköst og 1362 villur
Þegar tölfræði varðandi körfubolta vantar er Rúnar Birgir Gíslason betri en nokkur annar. Hann sendi Feyki eftirfarandi samantekt:
Helgi Rafn Viggósson lék sinn fyrsta leik í úrvalsdeild karla haustið 2001 þegar Tindastóll heimsótti Breiðablik í Smárann í fyrstu umferð Epson-deildarinnar það árið, fyrstu stigin komu svo á heimavelli í næstu umferð gegn Hamri. Hann var þá 18 ára gamall og nú 22 tímabilum seinna leggur hann skóna á hilluna en enginn hefur leikið fleiri tímabil fyrir félagið í sögunni.
Á þessum 22 árum hefur hann leikið 387 úrvalsdeildarleiki fyrir félagið auk 84 leikja í úrslitakeppni og 19 leiki í 1. deild, yfir 50 bikarleiki, auk fyrirtækjabikarleikja og annarra leikja fyrir félagið og er enginn sem hefur leikið eins marga meistaraflokksleiki í körfubolta með Tindastólsmerkið á brjóstinu, vel á sjötta hundrað. Helgi Rafn er í 7. sæti yfir þá leikmenn sem hafa leikið flesta deildarleiki í efstu deild karla frá upphafi
Á þessum 22 árum hefur liðið farið tólf sinnum í úrslitakeppni og fjórum sinnum í lokaúrslitin. Liðið hefur tvisvar farið í bikarúrslit og einu sinni orðið bikarmeistari og var það fyrirliðinn Helgi Rafn sem lyfti bikarnum í Laugardalshöll í janúar 2018 fyrir framan stóran hóp af stuðningsmönnum Tindastóls og svo var hann fyrirliðinn sem lyfti bikarnum þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn.
Í tölulegu ljósi er leikur Tindastóls og KR 23. október 2009 sá besti í sögu Helga, þar skoraði hann 36 stig og var með 38 í framlag.
Á þessum árum hefur Helgi Rafn skorað 3147 stig í Íslandsmóti, tekið 2404 fráköst, fengið 1362 villur svo fátt eitt sé nefnt.
/Áður birst í 29. tbl. Feykis 2023
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.