Jafntefli gegn liði Fjarðabyggðar
Tindastóll og Fjarðabyggð mættust í gær í 13. umferð 2. deildar karla og var leikið á lifandi grasi á Króknum. Lið Tindastóls þurfti nauðsynlega á þremur stigum að halda til að koma sér á ról í baráttunni fyrir áframhaldandi sæti í deildinni. Því miður hafðist það ekki þar sem liðin skildu jöfn en engu að síður var margt jákvætt í leik Stólanna og vonandi heldur liðið áfram að stíga upp. Lokatölur voru 2-2 eftir fjöruga viðureign.
Frá fyrstu mínútu var ljóst að upplegg gestanna byggðist að mestu á leikaraskap, væli og reiðilestrum í garð dómara leiksins. Honum til hróss má segja að hann lét leikræn tilþrif ekki plata sig of oft en sannarlega hefði hann mátt stoppa öskrin og endalausar heimtingar um spjöld. Þetta var ljóður á annars ágætu liði Austfirðinga sem hefur á að skipa mörgum ágætum leikmönnum. Leikið var við fínar aðstæður á Sauðárkróksvelli, veður stillt og hitastigið í lagi. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og bæði lið áttu ágætar sóknir. Í liði Tindastóls var Kyen Nicholas, enskur framherji, og hann leit vel út; sterkur á boltanum og áræðinn og ætti að nýtast Stólunum vel og opna leikinn fyrir aðra leikmenn. Hann átti einmitt fasta sendingu fyrir mark Fjarðabyggðar á 16. mínútu sem varnarmenn komust fyrir en Arnar Ólafs hirti lausa boltann og sendi hann af öryggi í netið. Gestirnir voru fljótir að kvitta fyrir þetta því þremur mínútum síðar fengu þeir hornspyrnu sem Milos Vasiljevic skallaði af harðfylgi í netið. Áfram hélt baráttan og á 35. mínútu fékk Nicholas boltann inn á vítateig gestanna, hótaði tvisvar skoti áður en hann náði að koma sér í gott færi og negldi boltanum óverjandi í vinstra hornið. Frábært mark og staðan 2-1 í hálfleik.
Í hálfleik voru spiluð lög með U2 samkvæmt einhverri undarlegri venju. Hvar er besta liðslag allra tíma, Upp á topp með Tindastól?
Lið Fjarðabyggðar reyndi að ná tökum á leiknum í síðari hálfleik og leitaði að jöfnunarmarkinu. Stólarnir vörðust vel og Faerber greip oft vel inn í í marki Tindastóls. Bæði lið gátu bætt við mörkum en leikmenn voru ekki alveg nógu yfirvegaðir í færunum. Jöfnunarmark kom á 80. mínútu eftir að Stólarnir höfðu brotið af sér rétt utan vítateigs. Úr spyrnunni skoraði Gonzalo Gonzalez með föstu skoti sem hann virtist stýra beint á Faerber sem ákvað að bregða sér aðeins frá – tók rangan séns. Bæði lið hefðu getað stolið öllum stigunum á lokakaflanum en næst komust Stólarnir á 89. mínútu þegar boltinn fór í stöng, skot var blokkað í markteignum og markvörður Fjarðabyggðar, Milos Peric, varði síðustu tilraunina meistaralega. Allt gerðist þetta á innan við 10 sekúndum og með ólíkindum að boltinn fór ekki í markið. Niðurstaðan því 2-2 sem gaf Stólunum allt of lítið.
Lið Tindastóls spilaði vel í gær, átti fína spilkafla og skapaði sér fjölda ágætra færa. Nicolas sýndi fína takta og styrkur hans fór augljóslega í taugar varnarleikara gestanna. Hann náði að halda boltanum þannig að kantmenn Stólanna, Arnar og Jónas, komust vel inn í leikinn og í holunni átti Benni oft ágæta takta. Fannar Kolbeins og Bjarki ná betur og betur saman í hjarta varnarinnar og fyrir framan þá voru Tanner og Hafsteinn í góðum gír. Í liði Fjarðabyggðar voru Gonzalez og Ruben Pastor flottir.
Næsti leikur Tindastóls er strax á miðvikudagskvöld en þá kemur lið Víðis í heimsókn á Krókinn. Við þurfum sigur!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.