Hester kemur í næstu viku
Undirbúningstímabilið er hafið hjá körfuboltaliðum Dominos deildarinnar og hefur Tindastóll leikið æfingaleiki gegn Þór á Akureyri og ÍR um síðustu helgi. Um helgina átti að leika tvo leiki, föstudag og laugardag, en vegna jarðarfarar fellur seinni leikurinn niður. Leikið verður gegn Njarðvík úti á föstudagskvöld og eru stuðningsmenn sunnan heiða hvattir til að mæta og láta í sér heyra.
Tindastólsliðið hefur æft stíft undanfarið og ætlar að mæta í Dominos deildina í miklu og góðu leikformi.
„Þetta lítur vel út, stór og góður hópur og allir heilir. Við erum klárir í fyrsta leik,“ segir Helgi Rafn Viggósson, hinn margreyndi leikmaður Stólanna. Hann segir æfingar hafa gengið vel og innkomu Fernando, aðstoðarþjálfara hafi verið góða. Æfingarnar byrja hjá honum en hann sér um styrktaræfingarnar, svo er farið í körfubolta hjá Martin.
Aðspurður um fjarveru Hesters segir Helgi ekki hafa neina áhyggjur. Fellibylurinn Irma sem gekk á land í Flórida setti allt á annan endann þar sem Hester býr og tafði það komu hans til landsins fram í næstu viku.
„Það er ekkert grín að lenda í þessu. Við gefum honum tíma til að vinna í þessu,“ segir Helgi Rafn sem ekki telur seinkunina ekki hafa mikil áhrif á liðið. „Við vitum hvað við erum að fá og hann þekkir þetta allt hjá okkur. Við höfum engar áhyggjur,“ segir Helgi að lokum.
Fyrsti leikur Tindastóls í Dominosdeildinni fer fram á Sauðárkróki 5. október gegn ÍR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.