Góður sigur Kormáks gegn Grundarfirði

Upphitun hjá strákunum hjá Umf. Kormáki fyrir leik. Ljósm./kormakur.icebasket.com/
Upphitun hjá strákunum hjá Umf. Kormáki fyrir leik. Ljósm./kormakur.icebasket.com/

Kormákur fékk Grundarfjörð í heimsókn sl. sunnudag en liðin leika bæði í 3. deild. Samkvæmt vef Umf. Kormáks var jafnræði með liðunum í leiknum, gestirnir leiddu naumlega nær allan leikinn en Kormáksmenn sem báru þó sigur úr býtum. Ágætis mæting var á pallana og þar á meðal var heil hersveit af trommurum, sem heldur betur lét heyra í sér, samkvæmt vefnum.

Fyrir leikinn höfðu Kormáksmenn spilað þrjá leiki, unnið einn en tapað tveimur. Grundfirðingar höfðu á meðan spilað tvo og unnið annan þeirra. Tapleikur þeirra kom gegn KFÍ b í fyrsta leik og var það lítið naumara en tap okkar gegn þeim. Sigurinn kom hinsvegar á móti ÍA b og var hann í stærra lagi.

Í leiklýsingu segir að fyrsti leikhluti hafi farið af stað af ágætis krafti, en erfiðlega gekk hjá báðum liðum að setja fyrstu stigin.

„Kormáksvörnin var vel skipulögð og leið m.a. skotklukkan út í einum af fyrst sóknum gestanna. Að sama skapi var miðið ekki á hjá okkar mönnum í sókninni og því þurfti að bíða aðeins eftir fyrstu stigunum. Eftir fjögurra mínútna leik komu þau loks og bæði lið náðu að setja sín fyrstu stig. Skiptust þau svo á að skora út fjórðunginn, aðallega þó af vítalínunni, en bæði lið spiluðu nokkuð fasta vörn. Undir lokin voru Grundfirðingarnir komnir með 5 stiga forskot, en flautukarfa frá Steina minnkaði þann mun niður í tvö stig. Eftir fyrsta leikhluta var því staðan 12-14.

Gummi Lofts opnar annan leikhlutann fyrir Kormáksmenn með tveimur góðum körfum, í seinna skiptið eftir stórskemmtilega blindsendingu frá Einari Val. Gestirnir ná að minnka muninn, en þristur frá Benjamín kemur okkur í 3ja stiga forystu. Aftur skiptast liðin á að skora og enn ein karfan frá Guðmundi bróður (Gauja). Á þessum tímapunkti er leikmaður númer 12 hjá gestunum allt í öllu í þeirra sóknarleik. Við náum fimm stiga forskoti eftir vítaskot frá Birki, en missum aðeins tökin varnarlega og fáum á okkur 7 stig á tveimur mínútum. Á lokasekúndum leikhlutans brýtur Ingibjörn á tólfunni í 3ja stiga skoti frá miðju, mjög tæpt en líklega rétt. Ekkert vítaskotanna fór þó ofaní, en sofandaháttur í frákastinu leiddi til sóknarfrákasts og körfu hjá Grundarfirði, hálfleikstölur 25-28. Mjög klúðurslegt að ná ekki að stíga út á þessu augnabliki og jafnframt svekkjandi að fara úr stöðunni 24-19 í 25-28.

Gestirnir frá Grundarfirði héldu áfram að breikka bilið í byrjun þriðja leikhluta. Tvær körfur og víti frá leikmanni númer sex og einn þristur frá númer 13 hjá gestum, gegn einni körfu frá Loftssyninum. Staðan orðin 27-36 og fátt sem benti til að við ætluðum að vera einhverjir þátttakendur í leiknum. Fimm stig í röð frá Bibba Gauks komu sem vítamínsprauta inn í liðið og þetta var skyndilega orðinn leikur á ný. Liðin skiptu stigunum bróðurlega það sem eftir lifði hálfleiks, en aftur var það leikmaður númer 12 hjá gestunum sem fór mikinn (setti síðustu 7 stig þeirra í leikhlutanum). Staðan 40-43 eftir þrjá leikhluta.

Grundfirðingarnir hófu fjórða leikhluta með þriggja stiga körfu, en Benjamín svaraði í sömu mynt um hæl. Við jöfnum svo leikinn aftur af vítalínunni, en við fórum alls átta sinnum á línuna í fjórðungnum (16 skot). Ingibjörn kemur okkur tveimur stigum yfir, en hinir jafna strax aftur. Þeir ná svo forystunni eftir þrist frá tólfunni. Benjamín nær svo forystunni aftur með enn einum þristinum (hans þriðja í leiknum). Tvær ferðir á línuna og karfa frá Birki og við erum skyndilega komnir með 5 stiga forskot.  En tólfan var ekki búin að segja sitt síðasta, annar þristur þar. Albert fer þá tvisvar á línuna fyrir okkur og setur annað ofaní í bæði skiptin. Þá erum við komnir 4 stigum yfir og rétt nægur tími fyrir gestina að setja eina sárabótarkörfu áður en flautan gall. Lokatölur 58-56.“

Loks segir að leikurinn hafi verið erfiður og jafnt á með liðunum allan leikinn. Leikmaður númer 12 hjá Grundfirðingunum, Przemyslaw Andri Þórðarson, dró vagninn fyrir sitt lið og setti á okkur þrjá þrista, nokkra ómögulega floatera og var ekki langt frá því að landa sigri fyrir lið sitt með 21 stigi. Seigla Kormáksmanna vóg hinsvegar þyngra í þetta skiptið og sigurinn hafðist á endanum, þótt erfiður hafi verið.

Nánar má sjá á vef Kormáks.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir