Fjölnisstúlkur fögnuðu í Síkinu
Leikið var í 1. deild kvenna á Króknum í gær þegar topplið Fjölnis úr Grafarvogi mætti Stólastúlkum í Síkinu. Leikurinn var ágæt skemmtun þar sem lið Tindastóls gaf toppliðinu lítið eftir og nokkur góð áhlaup héldu spennu í leiknum. Svo fór þó að lokum að liðsheild getanna reyndist sterkari og unnu þær sigur í Síkinu, lokatölur 68-73.
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað hvað stigaskorið varðar en þrátt fyrir að Fjölnisliðið væri sprækara fyrstu mínúturnar þá rötuðu skotin ekki niður. Eins og oftast áður í vetur gekk liði Tindastóls illa í frákastabaráttunni sem þýddi að sjálfsögðu að gestirnir fengu fleiri sénsa til að skora. Eftir fimm mínútna leik var staðan 4-8 og lið Fjölnis var með tíu stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 10-20, eftir að gestirnir settu niður nokkra stóra þrista. Virtust heimastúlkur ekki eiga mikinn séns í toppliðið en þær komu ákveðnar til leiks í öðrum leikhluta og komust yfir, 25-24, með þristi frá Evu Rún, þegar leikhlutinn var hálfnaður. Lið Fjölnis vaknaði þá aftur til lífsins en Kristín Halla setti niður þrist og minnkaði muninn í 28-29 og Marín Lind gerði næstu fimm stig Tindastóls og kom liðinu í 33-31. Fjölnir náði aftur yfirhöndinni en þristur frá Marín sá til þess að tveimur stigum munaði í hálfleik, 36-38. Fengu stelpurnar gott klapp frá um 200 körfuboltaþyrstum áhorfendum í Síkinu.
Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta en lið Fjölnis þó vanalega skrefinu á undan. Tess jafnaði leikinn 49-49 þegar tæpar sjö mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta en Tess var atkvæðamest í liði Tindastóls þrátt fyrir að Fjölnis-stúlkur gerðu sitt besta til að gera henni erfitt fyrir með hörku vörn. Gestirnir stigu upp eftir að Tess jafnaði leikinn og náðu 12-0 kafla áður en þriðji leikhluti kláraðist. Staðan 49-61 og ljóst að það var töluverð brekka í þessu fyrir lið Tindastóls. Yfirleitt munaði um tíu stigum á liðunum í fjórða leikhluta en Valdís Ósk minnkaði muninn í sjö stig með þristi þegar rúm mínúta var eftir. Lið Tindastóls fór illa með nokkrar sóknir síðustu mínúturnar en það var síðan Valdís sem setti niður lokaskot leiksins, þrist, og lokatölurnar því 68-73.
Tölfræði á vef KKÍ >
Tess Williams gerði 27 stig fyrir lið Tindastóls og tók níu fráköst en jákvætt var að liðið spilaði á köflum ágætlega þó hæðin sé að sjálfsögðu enn akkilesarhæll liðsins. Stólastúlkur tóku 46 fráköst í gær og áttu 65 skot á meðan lið Fjölnis hirti 65 fráköst og tók 91 skot. Marín Lind gerði 14 stig og komu þau flest í öðrum leikhluta og þá skilaði Erna Rut fínum átta stigum og Eva Rún gerði sjö. Í liði Fjölnis var hin eldsnögga Anna Ingunn stigahæst með 23 stig en skotnýtingin var kannski ekki upp á það besta, hún tók 16 3ja stiga skot en hitti aðeins úr þremur.
En fínn leikur hjá Stólastúlkum sem héldu í við toppliðið mest allan leikinn og hefðu með smá heppni og yfirvegun náð að stríða þeim jafnvel enn meir. Næsti leikur Tindastóls er hér heima á laugardaginn kl. 16:30 en þá kemur lið ÍR í heimsókn en liðin eru með jafn mörg stig í deildinni en lið ÍR hefur leikið ein leik færra. Allir í Síkið – áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.