Dæmdu eins og herforingjar þrátt fyrir þrekraun á leiðinni norður

Leikur Tindastóls og Þórs Þorlákshafnar frestaðist um klukkustund og 15 mínútur sl. föstudags vegna óviðráðanlegra orsaka, eins og tilkynnt var um sl. föstudagskvöld. Mátti það rekja til þess að dómarar leiksins, þeir Davíð Kristján Hreiðarsson, Ísak Ernir Kristinsson og Björgvin Rúnarsson, lentu í árekstri á Holtavörðuheiði á leiðinni norður.  

„Þeir höfðu lent í smávægilegum árekstri og voru stopp og einn þeirra var fyrir utan bílinn að athuga með skemmdir þegar stór bíll kemur æðandi út úr kófinu og lendir beint á bílnum þeirra með miklu afli,“ segir á vefmiðlinum Karfan.is en litlu mátti muna að Ísak, sem stóð fyrir utan, hefði lent fyrir bílnum en honum var kippt frá á síðustu stundu.  Áreksturinn var harður og er talið að bíll þeirra sé gjörónýtur á eftir.

Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls brást skjótt við og hélt til móts við þá félaga og sótti þá á heiðina.

„Ákveðið var, í samráði við KKÍ og dómarana sjálfa að bruna norður og klára leikinn þó tafir yrðu. Það má segja það eins og er að það er töluvert afrek hjá þeim félögum að halda áfram og dæma leikinn eftir þessa þrekraun og eiga þeir mikið hrós skilið. Dæmdu eins og herforingjar!“

Að neðan má sjá viðtal Hjalta Árna sem birt var á Karfan.is við Stefán Jónsson í Síkinu um atvikið þetta kvöld.

https://youtu.be/xxLIiudIAeI?list=UUp9yLcPtsb6xLK666y7jLgg

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir