Breiðhyltingar í Síkinu í kvöld

Dominos-deildin í körfubolta heldur áfram í kvöld en þá hefst 21. umferðin sem er sú næstsíðasta. Lið Tindastóls á heimaleik í Síkinu og það eru Breiðhyltingar í ÍR sem mæta brattir til leiks eftir ágætt gengi að undanförnu. Leikurinn hefst kl. 19:15 og eru stuðningsmenn hvattir til að styðja við bakið á Stólunum í baráttunni um þriðja sætið.

Lið Tindastóls er í baráttu við Íslandsmeistara KR og lið Njarðvíkur um þriðja sætið í deildinni. Lið Tindastóls og KR eru bæði með 26 stig en Stólarnir standa betur að vígi í innbyrðis viðureignum liðanna. Njarðvík er með 24 stig og þar standa Stólarnir sömuleiðis betur innbyrðis. 

Fjögur efstu sætin gefa heimaleikjarétt í úrslitakeppninni og því eftir talsverðu að slægjast. Með sigri í kvöld væri heimaleikjarétturinn tryggður en það verður sennilega ekki ljóst fyrr en í lokaumferðinni hver nær þriðja sætinu. Það er næsta víst að andstæðingar Tindastóls í úrslitakeppninni verða annað hvort lið Njarðvíkur, Hauka eða ÍR.

Þeir sem ekki eiga heimangegnt í kvöld geta horft á leikinn á TindastóllTV.com fyrir sanngjarna þóknun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir