Bergmann nýr formaður knattspyrnudeildar

Ómar Bragi tekur á móti blómvendi frá nýjum formanni, Bergmanni Guðmudssyni, fyrir  einstaka eljusemi og dugnað. Mynd: Facebook síðan Stuðningsmenn knattspyrnudeildar Tindastóls.
Ómar Bragi tekur á móti blómvendi frá nýjum formanni, Bergmanni Guðmudssyni, fyrir einstaka eljusemi og dugnað. Mynd: Facebook síðan Stuðningsmenn knattspyrnudeildar Tindastóls.

Á aðalfundi knattspyrnudeildar Tindastóls sem haldinn var í gær var Bergmann Guðmundsson kjörinn nýr formaður deildarinnar. Tók hann við af Ómari Braga Stefánssyni sem gegnt hefur stöðunni sl. 25 ár. Bergmann er bjartsýnn á framtíðina og segir starfið leggjast vel í sig.

„Knattspyrnan á Króknum er á góðum stað, mikil uppbygging framundan og mikið af góðu fólki sem starfar við knattspyrnudeildina. Það er mikil gróska í fótboltanum og ég hlakka til að gera gott starf betra,“ segir Bergmann. Fyrstu verk nýs formanns verða að koma á laggirnar ráðum í kringum starfsemina eins og barna- og unglingaráði, meistaraflokksráði o.fl. og halda áfram að reyna að auka iðkendafjöldann og fagmennskuna í kringum félagið ásamt því að vinna í að bæta aðstöðu og þjálfun fyrir íþróttafólkið.

Aðspurður um hvort eitthvað hafi verið gert á fundinum sem þykir fréttnæmt, segir Bergmann það ekki vera. „Fundurinn var í sjálfu sér hefðbundinn aðalfundur og ekki fréttnæmur sem slíkur nema fyrir þá staðreynd að Ómar Bragi gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður knattspyrnudeildar. Ég vil nota tækifærið og þakka honum enn og aftur fyrir alla þá áratugi sem hann hefur gefið fótboltanum á Króknum.“

Í stjórn knattspyrnudeildar sitja áfram þau Sunna Atladóttir, Ingvi Hrannar Ómarsson, Guðni Þór Einarsson, Guðrún Jenný Ágústsdóttir og Guðjón Örn Jóhannsson kemur nýr inn. „Þetta er flottur hópur af kraftmiklu fólki sem gaman verður að vinna með,“ segir Bergmann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir