Austin Bracey til liðs við Tindastólsmenn í körfunni

Stefán Jónsson, formaður, ásamt nýjum leikmanni Tindastóls, Austin Bracey.
Stefán Jónsson, formaður, ásamt nýjum leikmanni Tindastóls, Austin Bracey.

Austin Magnús Bracey hefur samið við körfuknattleiksdeild Tindastóls um að leika með liði Tindastóls í úrvalsdeildinni tímabilið 2016-2017. Bracey er Bandaríkjamaður með íslenskt ríkisfang og hefur spilað með liði Snæfells síðustu tímabil og kemur væntanlega til með að styrkja lið Tindastóls verulega.

Hann er framherji, hörkufín skytta, 190 sm hár og 26 ára gamall. Á síðasta tímabili lék Bracey alla 22 leiki Snæfells í Dominos-deildinni og gerði í þeim að meðaltali 16,3 stig, tók 3,8 fráköst og gaf 3,9 stoðsendingar. Bracey er ein af bestu 3ja stiga skyttum deildarinnar og ættu Tindastólsmenn að muna eftir því að hann gerði 36 stig gegn Stólunum í Síkinu síðasta vetur.

Tindastólsmenn hafa nú tryggt sér tvo sterka erlenda leikmenn sem báðir hafa íslenskt ríkisfang fyrir næsta vetur en auk Bracey hafa Tindastólsmenn samið við Bretann Cristopher Caird. Að sögn Stefáns Jónssonar, formanns körfuknattleiksdeildar Tindastóls, eru Stólarnir nú farnir að leita að kana fyrir komandi tímabil. Það er því allt útlit fyrir að Skagfirðingar mæti sterkir til leiks í körfunni í haust.

Ef einhver vill dunda við það yfir verslunarmannahelgina að rifja upp leik Tindastóls og Snæfells frá í vetur þá er hægt að smella hér og Bracey er númer 10 í liði Snæfells.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir