Ánægja með nýtt töfrateppi

„Með tilkomu þessa töfrateppis erum við að auka fjölbreytnina í fjallinu og getur fólk sem ekki á gott með að fara í lyftu notað það,“ sagði Viggó Jónsson framkvæmdastjóri Skíðadeildar Tindastóls. Töfrateppið reyndist mjög vel þegar það var tekið í notkun í fyrsta sinn um síðastliðna helgi.

Einungis þrjú skíðasvæði á landinu státa af slíku teppi, þ.e. í Bláfjöllum og á Hlíðarfjalli, og að sögn Viggós ríkir mikil ánægja og jákvæðir straumar gagnvart þessari nýjung.

Mikið um að vera í fjallinu um páskana

skidiYfir páskahátíðina flykkjast jafnan landsmenn á skíði en skemmtileg dagskrá verður í Tindastóli yfir hátíðarnar. Músíkin mun óma í fjallinu og þar verður t.d. Crazy Roller og braut fyrir krakka sem vilja renna sér á snjóþotum eða sleðum.

Bakarísmótið verður haldið að föstudeginum en þá verður tímataka og geta allir keppt í því. Allt er það til gamans gert og geta þá fullorðnir m.a. keppt á móti krökkunum sínum.

Þá verða flottar göngubrautir, bæði fyrir lengra komna og byrjendur. „Það er algengur misskilningur að göngubrautin sé svo erfið að byrjendur geti ekki farið í hana. Þeir sem vilja fara í braut sem er minna krefjandi geta valið hana, það er ekkert mál. Þær eru alltaf teknar saman í slaufur þannig að þú getur skíðað hvar sem er í sjálfum sér. Þannig að ég hvet fólk endilega til þess að koma á gönguskíði líka,“ segir Viggó.

„Síðan verður hægt að renna sér frá toppi skíðasvæðisins alveg niður á veg, ef fólk vill klára daginn þannig að einhver bíður þar með bílinn. Um að gera að koma upp í fjall og hafa gaman að,“ sagði Viggó að lokum.

Opið frá kl. 11-19 fram að helgidögunum en kl. 10 – 16 dagana 2.-5. apríl.

Hægt er að fylgjast með síðu skíðasvæðisins á vefnum og facebook, auk þess er hægt að hringja í upplýsingasímann 878 3043.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir