Vel heppnaður umhverfisdagur FISK Seafood

Þátttakendur umhverfisdags FISK Seafood voru á öllum aldri og kepptust við að tína rusl sem hvarvetna vill leynast í umhverfinu. Mynd: PF.
Þátttakendur umhverfisdags FISK Seafood voru á öllum aldri og kepptust við að tína rusl sem hvarvetna vill leynast í umhverfinu. Mynd: PF.

Gríðargóð þátttaka var á umhverfisdegi FISK Seafood sem fram fór síðastliðinn laugardag í Skagafirði enda hafði fyrirtækið heitið tíu þúsund krónum á hvern þátttakenda sem rynni inn á reikning aðildarfélags eða deildar innan UMSS sem hver óskaði eftir.

Klukkan 10 árdegis mætti fólk á fyrirframgefna staði sem deildum og félögum hafði verið úthlutað á Sauðárkróki, í Varmahlíð, Hólum og á Hofsósi. Á Króknum var lögð áhersla á strandlengjuna frá Steinull og austur að Vesturós Héraðsvatna auk efri mýranna hjá hesthúsahverfinu og umhverfi Tjarnartjarnar.

Sannarlega stóðst ætlun FISK Seafood að gera umhverfisdaginn að samverustund fjölskyldunnar þar sem allir hjálpuðust að við að fegra umhverfið, styðja við aðildarfélög og deildir innan UMSS og það sem er ekki hvað síst í stóra samhenginu, að upplifa náttúruna hreina og hve mikilvægt það er að passa upp á hvert ruslið okkar endar. Þá er heldur ekki slæmt að taka þátt í að afla fjár í deildina sína.

Eftir árangursríka hreinsun um morguninn bauð fyrirtækið öllum þátttakendum að þiggja veitingar í nýrri byggingu FISK Seafood að Sandeyri 2, fiskisúpu, pylsur og vænar snittur.

Dagurinn verði árlegur

Stefanía Inga Sigurðardóttir, gæða- og öryggisstjóri
FISK Seafood og skipuleggjandi umhverfisdagsins,
ásamt börnum sínum. Mynd: Davíð Már Sigurðsson.

„Þetta var í einu orði sagt stórkostlegur dagur. Yfir fimm hundruð manns mættu og mun FISK Seafood greiða aðildarfélögum og deildum innan UMSS yfir fimm milljónir króna fyrir þátttökuna. Í vikulokin munum við vita magnið af rusli sem var plokkað í þessu átaki en það mun örugglega mælast í verulegum fjölda tonna,“ segir Stefanía Inga Sigurðardóttir, skipuleggjandi dagsins. Hún segir ætlunina að festa þennan dag við fyrsta laugardag í maí ár hvert, nema ef daginn skyldi bera upp á fyrsta maí, þá annan laugardag maí mánaðar.

„Svona verkefni verður ekki til nema með samstöðu í samfélaginu, hvort sem það er fólkið sem mætir og tekur þátt eða fyrirtækin sem koma að skipulaginu, t.d. með að rýma húsnæði, skaffa gáma og tækjabúnað, elda mat og þar fram eftir götum.“

Stefanía segist hafa búist við góðri þátttöku enda samfélagið samheldið og fólk tilbúið að leggjast á eitt þegar farið er í álíka verkefni. „Ég viðurkenni samt að þrátt fyrir að ég hafi búist við góðri þátttöku þá fór þetta fram úr björtustu vonum,“ segir hún og bætir við: „Mig langar að þakka öllum þeim sem tóku þátt, bæði sjálfboðaliðunum sem plokkuðu og einnig samstarfsfólki mínu í FISK Seafood sem fyrir utan alla tínsluna voru miklu meira en ómissandi í undirbúningi og framkvæmd verkefnisins. Svo verð ég auðvitað að koma þakklæti á framfæri til stjórnendateymisins í FISK Seafood fyrir að gera þennan dag að veruleika með jafn miklum myndarbrag og raun ber vitni.“

Á Facebooksíðu FISK Seafood er hægt að nálgast fjölda mynda Davíðs Más Sigurðssonar frá deginum góða. Sjá HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir