Vegagerðin ætlar að rjúfa varnalínu búfjárveikivarna
Vegagerðin áformar að fjarlægja þrjú ristahlið á Þjóðvegi 1, tvö hlið í Húnavatnssýslu og eitt hlið við Héraðsvötn en þau eru mikilvægur þáttur í búfjárveikivörnum milli varnarhólfa. Landbúnaðarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar krefst þess að varnarlínum búfjárveikivarna verði haldið við samkvæmt lögum þar um og benda á að það grindarhlið sem fjarlægja á í Skagafirði skilur að virkasta riðusvæðis landsins og öðru sem hefur verið laust við riðu í tvo áratugi.
„Það lýsir fáheyrðu ábyrgðarleysi að stefna í hættu áratugabaráttu gegn hættulegasta sauðfjársjúkdómi síðari ára og ætla ekki að endurnýja ristahlið á Þjóðvegi 1 við Héraðsvötn sem gegnir mikilvægu hlutverki í smitvörnum á milli virkasta riðusvæðis landsins og svæðis sem hefur verið riðulaust yfir 20 ár. Miklum tíma og fjármunum hefur verið varið í að reyna að uppræta riðuveiki í landinu um árabil með ágætum árangri og skæklatog einstakra stofnana ríkisins um kostnað við að viðhalda þeim árangri má einfaldlega ekki stefna því í hættu. Vegagerðin, Matvælastofnun og Atvinnuvegaráðuneytið verða einfaldlega að leysa málið sín á milli og það strax. Landbúnaðarnefnd mun óska eftir fundi með forráðamönnum MAST og Vegagerðarinnar hið fyrsta vegna málsins,“ segir í fundargerð landbúnaðarnefndar Svf. Skagafjarðar frá því í gær.
Ristarhlið það sem um ræðir í Skagafirði er staðsett við Héraðsvötn austan Varmahlíðar á hreppamörkum Svf. Skagafjarðar og Akrahrepps og aðskilur Tröllaskagahólf og Húna- og Skagahólf. Síðast kom riða upp á Miklabæ í Óslandshlíð í Tröllaskagahólfi, utan Dalvíkurbyggðar árið 2000 en handan vatna er þekkt riðusvæði þar sem sjö riðutilfelli hafa komið upp sl. fimm ár, seinast í fyrra á Grófargili.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.