Valur Valsson er LH-félagi ársins 2022
LH–félagi ársins eru hvatningarverðlaun fyrir sjálfboðaliða og félaga hestamannafélaga sem vinna fórnfúst og óeigingjarnt starf í þágu hestamennskunnar.
Efnt var til netkosningar þar sem kosið var á milli fimm öflugra félagsmanna sem tilnefndir voru af sínum félögum. Valur Valsson Hestamannafélaginu Neista á Blönduósi, bar sigur úr býtum í netkosningunni og óskum við honum innilega til hamingju.
Valur Valsson var kosinn í stjórn Neista þegar Hestamannafélagið Neisti og Óðinn sameinuðust. Hann var í stjórn og/eða sem formaður frá þeim tíma þar til fyrir u.þ.b. 2 árum. Hann var ýmist formaður eða stjórnarmeðlimur og oftast í mótanefnd. Fyrsta mótið sem hann sá um var árið 1991 og hann hefur komið að fjölmörgum mótum síðustu 30 árin. Nú í seinni tíð hefur mótanefnd séð um vetrarmótin sem eru haldin í reiðhöllinni á Blönduósi og geta verið 3 - 4 mót að vetri. Hér áður fyrr voru mótin einungis haldin á sumrin og voru eitt eða tvö talsins. Mótanefndin sér um allan undirbúning og mótahaldið sjálft.
Valur tók dómararéttindi 1994 og landsdómararéttindi 2003 og hefur verið dómari á Landsmóti hestamanna síðan 2004. Valur hefur einnig verið liðtækur í gegnum árin að aðstoða börn sem og fullorðna fyrir stórmót, segja þeim til hvernig best sé að undirbúa sig og hverju sé verið að leitast eftir í dómi. Hann er þá með börn uppá velli nokkur kvöld fyrir mót að leiðbeina þeim. Landsmót UMFÍ var haldið á Blönduósi árið 1995 og sá hann til að mynda um að þjálfa þau börn sem þar tóku þátt.
Valur hefur lagt mikið og óeigingjarnt starf til hestamannafélagsins, hefur verið lengi í stjórn og nefndum og er því vel að því kominn að vera valinn LH-félagi ársins.
/lhhestar.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.