Útgáfuhátíð Byggðasögu Skagafjarðar
Annað kvöld, mánudaginn 11. apríl, stendur Sögufélag Skagfirðinga fyrir útgáfuhátíð tíunda og síðasta bindis Byggðasögu Skagafjarðar. Fer hátíðin fram í félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi og hefst kl. 20:00. Í lokabindinu, sem kom út í lok síðasta árs, er fjallað um Hofsós, Grafarós, Haganesvík og eyjarnar Drangey og Málmey.
Á vegum Leikfélags Hofsóss verður upplestur úr völdum köflum Byggðasögunnar og fleira. Nokkrir flytja ávörp en auk þess mun Hjalti Pálsson, ritstjóri, líta yfir farinn veg að verki loknu.
Í frétt á vefsíðu Sögufélags Skagfirðinga segir: „Byggðasaga Skagafjarðar er orðin gríðarlega efnismikið og mikilvægt uppflettirit um allar bújarðir Skagafjarðar og ábúendur þeirra í 240 ár, frá 1781-2021. Þær eru nálægt 676 talsins, auk þess meira en 400 fornbýli frá eldri tíð og um 90 húsmannsbýli og tómthús þar sem fólk hafðist við um lengri eða skemmri tíma. Bækurnar tíu er samtals 4.620 blaðsíður með meira en 5.000 ljósmyndum og kortum.“
Sveitarstjórn Skagafjarðar býður upp á kaffiveitingar í Höfðaborg og þá verða bækur Byggðasögunnar til sölu á hagkvæmu verði. Allir eru velkomnir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.