Umhverfisdagurinn í Skagafirði á laugardaginn

Séð yfir Varmahlíð og nágrenni. Mynd af skagafjordur.is.
Séð yfir Varmahlíð og nágrenni. Mynd af skagafjordur.is.

Umhverfisdagurinn í Skagafirði verður haldinn nk. laugardag, 21. maí og að sögn Ingibjargar Huld Þórðardóttur, formanns umhverfis- og samgöngunefndar Svf. Skagafjarðar, verður hann tileinkaður útivist og umhverfisvitund. „Allir eru hvattir til að fara út og njóta þess sem Skagafjörður hefur uppá að bjóða,“ segir Inga Huld.

„Við viljum beina athygli íbúa að garðyrkjustöðvum í héraði og því metnaðarfulla starfi sem þar fer fram um leið og við hvetjum alla, einstaklinga og fyrirtæki, til að huga að sínu nærumhverfi.“

Á  heimasíðu sveitarfélagsins kemur fram að Umhverfisdagurinn hafi verið haldinn árlega í rúma þrjá áratugi. Þar er fólk einnig hvatt til að nota daginn til útivistar, hefja daginn til dæmis á að fara í gönguferðir um einhvern skóga héraðsins svo sem í Varmahlíð, við Silfrastaði, að Hólum, rölta um Litla-Skóg, skoða stuðlabergsfjöruna við Hofsós, eða eitthvað allt annað sem fólk langar að skoða. Jafnframt er kjörið að huga að snyrtingu nærumhverfis síns þennan dag.

„Í tilefni dagsins verður opið hús í nokkrum gróðrarstöðvum héraðsins. Í gróðurstöð sveitarfélagsins í Sauðármýri eru ræktuð sumarblóm sem skreyta samfélag okkar Skagfirðinga á sumrin. Opið hús verður í gróðurstöðinni frá klukkan 9-12 á umhverfisdaginn. Jafnframt verður opið hús í gróðurstöðinni Laugarmýri frá kl. 13-18 en þar fer fram fjölbreytt framleiðsla á m.a. sumarblómum, forræktuðu grænmeti, tómötum, gúrkum, jarðarberjum, blómberjum, plómum, grænkáli, trjám og runnum, salati og kryddjurtum. Gróðurstöðin að Starrastöðum verður einnig opin þennan dag frá kl. 13-18 en þar eru framleiddar rósir af ýmsum gerðum.“

Stutt er síðan velheppnaður umhverfisdagur FISK Seafood fór fram og gaman að geta þess að í heildina voru tínd 8,7 tonn af rusli um allt hérað þann daginn. Það munar um minna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir