Tveir réttir úr taílenska tilraunaeldhúsinu
Matgæðingur vikunnar í 34. tbl. Feykis árið 2017 var Jón Ívar Hermannsson sem starfar sem tölvunarfræðingur hjá TM Software, dótturfélagi Nýherja og vinnur hann þar við ýmis hugbúnaðarverkefni. Jón Ívar er búsettur í Reykjavík en er þó alltaf með annan fótinn á Hvammstanga en þar er hann uppalinn. Jón segist lengi hafa haft áhuga á matargerð, ekki síst ef maturinn er frá framandi löndum, og hefur hann m.a. sótt námskeið í taílenskri og indverskri matargerð.
„Það var á ferðalagi mínu í Taílandi, þar sem ég ákvað að taka skrefið og fara á námskeið í taílenskri matargerð. Þegar heim var komið ákvað ég að prófa mig áfram og varla líður sú vika þar sem enginn taílenskur réttur er borinn á borð. Hér á eftir koma tveir af þessum réttum, báðir frekar sterkir, en eru það reyndar ekki upprunalega. Best er að nota Wok-pönnu og elda við frekar háan hita, spaði notaður nær allan tímann. Uppskriftirnar eru báðar miðaðar við einn og ættu ekki að taka lengri tíma en 20 mínútur að útbúa. Flest hráefnið ætti að fást í næstu matvöruverslun, en sumt gæti þurft að kaupa í sérvöruverslun (t.d. Mai Thai við Hlemm). Best er að nota Thai Jasmine-hrísgrjón,“ segir Jón Ívar um réttina sem hann ætlar að bjóða upp á.
RÉTTUR 1
Kjúklingur í kasjú
1 kjúklingabringa
kasjúhnetur (handfylli)
3-4 þurrkaðir chili
½ körfu-hvítlaukur (eða 2-3 hvítlauksgeirar)
½ -1 laukur
3-4 ferskir thai rauðir chili
1-2 stilkar af vorlauk
2 msk Thin Soy Sauce (Healthy Boy)
1 msk Oyster Sauce
1-2 tsk Sambal Oelek (chili mauk úr krukku)
1 tsk thai palm sugar (má sleppa)
Aðferð:
Fyrst tökum við þurrkaðan chili, fínt saxaðan hvítlauk og kasjúhnetur og setjum út í heita olíu á pönnu. Kjúklingur er skorinn í hæfilega litla bita og steiktur með. Þegar kjúklingurinn er nokkurn veginn steiktur í gegn, þá er öllu grænmeti nema vorlauknum blandað saman við og það léttbrúnað. Chili-maukinu er þá bætt út í og öllu blandað saman. Sykurinn er síðan settur á autt svæði á pönnunni, leystur upp í sojasósunni, þá ostrusósunni bætt saman við og öllu hrært saman. Vorlaukurinn skal fínt saxaður og honum bætt við í restina. Borið fram með Thai Jasmine-hrísgrjónum, sem sniðugt er að móta áður með lítilli skál.
Rétturinn er frekar sterkur, hægt er að gera hann mildari með því að sleppa eða minnka við chili-piparinn. Einnig má bæta út í réttinn öðru grænmeti, t.a.m. gulrótum, papriku (gróft saxaðri) og baby corn.
RÉTTUR 2
Steikt hrísgrjón með kjúklingi
1 skammtur Thai Jasmine hrísgrjón
¾ -1 kjúklingabringa
2-4 þurrkaðir chili
½ körfu-hvítlaukur (eða 2-3 hvítlauksgeirar)
1 egg
½ -1 laukur
1 gulrót
2-4 ferskir thai rauðir chili
2 msk Thin Soy Sauce (Healthy Boy)
1 msk Fish Sauce
Aðferð:
Við byrjum á því að sjóða hrísgrjónin og setjum þau til hliðar (eða sjóðum þau á meðan við gerum annað hráefni klárt). Við steikjum kjúklinginn í litlum bitum í olíu á pönnu með söxuðum hvítlauk og þurrkuðum chili. Þegar kjúklingurinn er steiktur í gegn, steikjum við eggið til hliðar og hrærum því svo saman við kjúklinginn. Kjúklingurinn er þá settur til hliðar og grænmetið steikt á pönnunni þangað til það er farið að brúnast. Þá er kjúklingnum bætt við út á aftur og síðan hrísgrjónunum. Báðar sósurnar eru settar saman við, öllu blandað saman og grjónin látin steikjast smástund á meðan hrært er í með spaðanum. Í blálokin getur verið gott að bæta smá chili-flögum út á. Rétturinn er færður yfir á disk og borinn fram með gróft skornum gúrkusneiðum og lime-sneið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.