Tónlistarveisla beint í æð beint úr Bifröst í kvöld
Það styttist óðfluga í að ungt og sprækt tónlistarfólk þrammi á svið í Bifröst og streymi jólin heim til þeirra sem hlýða vilja. Tónleikarnir, sem Feykir hefur áður sagt frá, kallast Jólin heima og verður opnað fyrir streymið kl. 19:30. Streymið er hægt að nálgast á YouTube síðunni TindastóllTV eða á heimasíðunni tindastolltv.com.
Feykir náði í skottið á Eysteini Ívari Guðbrandssyni, hljómborðsleikara, og spurði hvernig undirbúningur hefði verið. „Æfingar hafa gengið mjög vel. Við höfum æft síðustu þrjár helgar saman og allt að smella saman.“
Eysteinn segist reikna með að tónleikarnir verði tæpur einn og hálfur tími að lengd. „Við erum að tala um að þetta eru 13 jólalög á dagskrá. Áhorfendur mega eiga von á tónlistarveislu beint í æð.“
Söngvararnir sem þenja munu raddböndin í kvöld eru Bergrún Sóla, Dagný Erla, Ingi Sigþór, Malen Áskels, Rannveig Sigrún, Róbert Smári og Sigvaldi Helgi. Hljómsveit kvöldsins skipa þeir Alex Már, Arnar Freyr, Eysteinn Ívar, Jóhann Daði, Jón Gestur, Sigvaldi Helgi og loks Sæþór Már.
Fólk getur fundið upplýsingar á facebook viðburðinum Jólin heima, þar munu allar upplýsingar um streymið koma fram. Annars getur fólk sem fyrr segir fundið tónleikana á YouTube rás Tindastólstv eða á heimasíðu þeirra, Tindastolltv.com.
„Það er frítt inn á streymið en síðan [bendum við á] frjáls framlög til styrktar Fjölskylduhjálp Skagafjarðar og hvetjum við fólk til þess að styrkja gott málefni. Reikningsupplýsingar munu birtast á skjánum í útsendingunni. Að lokum; höldum okkur heima, höfum það huggulegt og njótum þess að eiga góða kvöldstund saman,“ segir hljómborðsleikarinn geðþekki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.