Tindastólsmenn með sigur á Dalvík/Reyni

Lið Tindastóls á Dalvíkurvelli.  MYND: ÓBS
Lið Tindastóls á Dalvíkurvelli. MYND: ÓBS

Tindastóll vann góðan sigur á Dalvík/Reyni á laugardaginn í 3. umferð 3. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikið var á Dalvíkurvelli við ágætar aðstæður og fór svo að Stólarnir unnu góðan 0-3 sigur.

Það var Ragnar Þór Gunnarsson sem skoraði fyrsta mark leiksins á 24. mínútu og staðan í hálfleik 0-1 fyrir Tindastól. Í seinni hálfleik bætti Benjamín Gunnlaugarson við marki á 65. mínútu og síðan kláraði Kenneth Hogg leikinn með þriðja marki Tindastóls á 79. mínútu. Sigur Tindastóls var sanngjarn og hefur liðið nú unnið tvo síðustu leiki sína í deildinni.

Næsti leikur Tindastóls er áætlaður hér heima sunnudaginn 5. júní en þá eiga Sveinbjörn Ásgríms og félagar í Knattspyrnufélagi Rangæinga að koma í heimsókn á Krókinn. Sauðárkróksvöllur er enn í lamasessi en græni liturinn hefur þó örlítið tekið við sér nú síðustu vikuna og er veik von til þess að spilað verði á vellinum á sunnudag. Það verður þó ekki tekin ákvörðun þar að lútandi fyrr en undir helgi.

Lítið álag er á vellinum í júní þar sem knattspyrnumenn og -konur um allt land munu parkera takkaskónum og einbeita sér að því að fylgjast með framgöngu Íslands í Evrópukeppninni í knattspyrnu í næstum hálfan mánuð. Þarnæsti heimaleikur mfl. Tindastóls karla er ekki fyrr en 24. júní og miðað við að sæmilegasti hiti er í kortunum þá verður völlurinn vonandi kominn í gott ástand á þeim tíma. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir