Tindastólskempurnar kafsigldu KFS

Bjarni Smári í leik á móti Þrótti Vogum fyrr í sumar. Bjarni fékk að skoða gula spjaldið hjá dómaranum í dag en hann hefur reyndar séð það áður.  MYND: ÓAB
Bjarni Smári í leik á móti Þrótti Vogum fyrr í sumar. Bjarni fékk að skoða gula spjaldið hjá dómaranum í dag en hann hefur reyndar séð það áður. MYND: ÓAB

Í hádeginu í dag mættu Eyjapeyjar í KFS á Krókinn og spiluðu við lið Tindastóls í 3. deildinni. Liðin hafa átt ólíku láni að fagna það sem af er sumri; Stólarnir á toppnum en KFS við botninn. Það kom enda í ljós í leiknum að talsverður getumunur er á liðunum en þó var það ekki fyrr en eftir klukkutíma leik að Stólarnir náðu góðri forystu. Lokatölur urðu 5-0.

Ragnar Þór Gunnarsson kom Stólunum yfir á 19. mínútu í norðangarranum í dag og þannig var staðan í leikhléi. Gestirnir urðu síðan fyrir því óláni að gera sjálfsmark á 60. mínútu og eftir það var Þjóðhátíðarstemning hjá Stólunum. Kenneth Hogg bætti við marki mínútu síðar, Ragnar setti annað mark sitt og fjórða mark Tindastóls á 81. mínútu og það var síðan Óskar Smári Haraldsson sem setti punktinn yfir i-ið með marki á 93. mínútu.

Stólarnir eru sem fyrr á toppi deildarinnar en Víðismenn eru skammt undan og eiga leik til góða. Í næsta leik, sem fer fram á Króknum næstkomandi laugardag, mæta Stólarnir liði Kára, en Akurnesingarnir eru nú um miðja deild. Það má því gera ráð fyrir hörkuleik en þetta er síðasti leikur liðanna í fyrri umferð 3. deildar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir