Tindastóll mætir KR í kvöld

Það er hlaupin spenna í Domino´s deildina hjá körlunum en ÍR-ingar tylltu sér á toppinn með sigri á Grindavík í gær með 16 stig jafn mörgum og Tindastóll en vinninginn í innbyrðisviðureignum þar sem ÍR vann Stólana í fyrsta leik tímabilsins. Með sigri á KR í kvöld munu Stólarnir endurheimta toppsætið en leikið er í DHL höllinni syðra.

Helgi Freyr Margeirsson sagði í spjalli við Feyki í morgun lítast vel á leikinn gegn KR í kvöld. „Það er rétt hjá þér það er mikil eftirvænting fyrir þessum leik jafnt hjá leikmönnum sem eru búnir að nýta landsleikjahléið vel til æfinga og í endurhæfingu, mest yngri menn liðsins, sem virðast þola álagið minna en við gömlu mennirnir,“ segir Helgi sposkur, „og áhangendum liðsins sem vita að leikir þessara liða eru mikil skemmtun.  KR er með hörkulið og þurfum við að passa að gefa þeim engin sóknarfráköst né hleypa skyttum þeirra í auðveld skot.“ 

Helgi segir aðalatriðið í þessum leik verði þó það sama og í öllum öðrum leikjum Stólanna. „Ef við spilum okkar hraða og hreyfanlega leik og þá sérstaklega varnarlega að þá eigum við ekki að þurfa að spá mikið í því hvað andstæðingurinn leggur upp með.“

Hann segir liðið vera á góðum stað í deildinni, það sé undir liðinu sjálfu komið að halda toppsætinu og þannig ætti það að vera. Hann telur að fyrsti leikur tímabilsins sem tapaðist á móti ÍR hafi jafnvel komið á besta tíma. „Liðið sýndi í þeim leik á sér tvær hliðar, aðra alveg frábæra þegar við bjuggum okkur til 20+ stiga forskot og svo hina hliðina þar sem við misstum hana niður og töpuðum svo leiknum í lokin. Að sjá þessar tvær hliðar strax í upphafi móts sýndi okkur það að ekkert er gefið í þessu en ef við spilum eins og við getum að þá erum við rosalega góðir. Hin hliðin á peningnum er þannig að ef við förum að slaka á í vörninni og ætlum að gera þetta sem einstaklingar í sókninni, þá fjarar hratt undan okkur.“

Stuðningsmenn sunnan heiða eru hvattir til að mæta á svæðið og hvetja strákana sem aldrei fyrr. Um sjónvarpsleik er að ræða hjá Stöð2 svo TindastólsTV er ekki með útsendingu.

Staðan í deildinni þegar einn leikur er eftir í 9. umferð

 

1.

ÍR

7/2

14

2.

Tindastóll

7/1

14

3.

Keflavík

6/3

12

4.

Haukar

6/3

12

5.

KR

5/3

10

6.

Njarðvík

5/4

10

7.

Valur

4/5

8

8.

Stjarnan

4/5

8

9.

Grindavík

4/5

8

10.

Þór Þ.

3/6

6

11.

Þór Ak.

2/7

4

12.

Höttur

0/9

0

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir