Þrjú stig sótt á Seltjarnarnesið

Jackie hefur verið að spila vel fyrir lið Tindastóls í sumar og hún gerði annað mark liðsins í gærkvöldi. MYND: ÓAB
Jackie hefur verið að spila vel fyrir lið Tindastóls í sumar og hún gerði annað mark liðsins í gærkvöldi. MYND: ÓAB

Stólastúlkur spiluðu á rennblautu Seltjarnarnesinu í gær þar sem þær mættu liði Gróttu sem var fyrir leik í fjórða sæti Lengjudeildarinnar, höfðu ekki tapað leik frekar en lið Tindastóls sem var í öðru sæti. Það var því sterkt hjá liði Tindastóls að sækja sigur á Vivaldi-völlinn og koma sér enn betur fyrir í öðru af toppsætum deildarinnar. Lokatölur voru 0-2.

Leikurinn var jafn og lítið markvert gerðist fyrr en Hugrún Palla og Guðnýjar gerði fyrsta mark leiksins eftir sendingu Mur fyrir mark Gróttu af vinstri kantinum. Bæði lið fengur færi eftir þetta en staðan í hálfleik var 0-1. Amber bjargaði tvívegis mjög vel á upphafsmínútum síðari hálfleiks og Murielle var sömuleiðis nálægt því að bæta við marki fyrir Tindastól en hún er enn ekki alveg búin að fínstilla miðið. Seinna mark Tindastóls kom á 70 mínútu en þá fékk Jackie stungusendingu inn fyrir vörn Gróttu og hún náði að vippa boltanum yfir markvörð heimastúlkna sem var komin langt út úr markinu. Gróttustúlkur reyndu að koma sér inn í leikinn síðustu mínúturnar en gekk illa að brjóta vörn gestanna á bak aftur. 

Eftir leiki gærkvöldsins eru Keflavík og Tindastóll sem fyrr í toppsætunum tveimur en nú með fimm stiga forystu á næstu lið. Vörn Tindastóls hefur verið að spila vel og liðið hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í fyrstu fimm leikjum sumarsins. Það er talsvert ólíkt síðasta sumri þar sem liðið skoraði helling og fékk á sig nánast annan eins helling. 

Feykir sendi nokkrar spurningar á Vigdísi Eddu Friðriksdóttur, Tindastólsstúlku sem nú spilar með toppliði Breiðabliks í efstu deild, en hún var á meðal áhorfenda á leiknum.

Voru þetta sanngjörn úrslit á Seltjarnarnesinu? „Já, ég myndi segja það, Grótta skapaði sér ekki mörg dauðafæri og Amber markmaður varði vel þessi færi sem Gróttustelpur fengu. Hinsvegar átti Mur að setja 1-2 mörk í seinni halfleik.“

Var eitthvað sem kom á óvart í leik Tindastóls? „Leikurinn var rólegur á köflum og átti ég von á meiri látum, sem hefur oft verið þegar liðin mætast það sem kom mér á óvart var að Guðni spilaði annað kerfi en vanalega, en annars bara solid leikur hjá stelpunum.“

Hverjir eru helstu styrkleikar Stólastúlkna? „Helsti styrkleikur þeirra er þessi liðsheild, kraftur og vilji. Við vissum hvað Mur og Jackie geta og hversu mikilvægar þær eru liðinu en Amber markmaður hefur komið skemmtilega inn í liðið og er þrusugóð. Hugrun og Aldís eru búnar að vera virkilega sprækar og spennandi að fylgjast með þeim í sumar. Heimastelpurnar standa alltaf fyrir sínu og búinn að vera mun meiri stöðugleiki í liðinu og vonandi rætist draumurinn,“ segir Vigdís Edda en draumurinn er að sjálfsögðu sæti í efstu deild.

Hér er hlekkur á myndasyrpu úr leiknum sem er á Fótbolti.net > 

Næsti leikur Stólastúlknar er nk. þriðjudagskvöld en þá kemur lið Fjölnis úr Grafarvogi í heimsókn á Krókinn. Áfram Tindastóll!

- - - - - - -

Fréttin var uppfærð kl. 15:43.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir