Það er gaman að vera hér og hitta félagana :: Nafabóndinn Hörður Sigurjónsson
Áfram er haldið með heimsóknir á Nafirnar á Króknum en þar hafa frístundabændur lengi verið með kindurnar sínar og notið náttúru og mannlífs sem þar ríkir. Þó margir þeirra hafi verið þar í langan tíma með sinn búskap er einnig hægt að finna einhverja sem teljast til nýseta og er Hörður Sigurjónsson einn af þeim. Misserin er enn hægt að telja á fingrum annarrar handar frá því hann fékk sér kindur og líkt og aðrir Nafabændur líkar honum vel að snúast í kringum féð og taka þátt í skemmtilegu mannlífi.
Þó Hörður sé nýliði á Nöfunum er ekki hægt að segja að hann sé alger nýgræðingur í fjárræktinni þar sem hann ólst upp á stóru fjárbúi í Ytri-Hlíð í Vopnafirði og var sjálfur bóndi á tímabili.
Árið 2002 flutti Hörður á Sauðárkrók með fjölskyldu sína og þá voru hestarnir brúkaðir og segir hann að, eins og margir, hafi átt of mikið af hestum þá sem oftar. „En síðastliðið sumar seldi ég minn síðasta hest. Á engan núna. Var búinn að eiga hross í rúmt 51 ár þegar ég seldi meri sem ég átti í ágúst. Það er léttara að vera með kindurnar, þær hafa ekki farið eins illa með mig, hafa ekki ennþá náð að beinbrjóta mig eins mikið og hestarnir,“ segir hann hlægjandi. Ekki það að neinar sögur séu rifjaðar upp af óhappaferðum hestamennskunnar.
En eins og áður sagði er Hörður tiltölulega nýbyrjaður búskap á Nöfunum en haustið 2019 fékk hann sér kindur. „Þá keypti ég átta gimbrar, forystusauðinn og hrút, var með tíu fyrsta árið. Sótti sex gimbrar í Gunnarsstaði og sauðinn og svo hrút í Hjarðarás og tvær gimbrar. Síðan hef ég keypt annars staðar frá, m.a. frá Máfahlíð á Snæfellsnesi og Garði í Þistilfirði.“
Hörður segir tuttugu hausa vera í húsunum í dag, sauður og tveir hrútar meðtaldir, sem er meira en lagt var með upp í fyrstu. Hann bendir á að hægt sé að breyta því snarlega ef hópurinn skilar ekki ásættanlegum afurðum. Hörður vill meina að 15 til 16 kindur væri nóg bæði upp á hey og annað að gera en túnið er lítið sem fylgir húsinu og takmarkað sem af því kemur. „Maður er að þessu sér til gamans og þá þarf maður að hafa gaman af þessu,“ segir hann.
Í eitthvað er að líta
Þó skrítið sé að orða það þannig þá kom þessi rollubúskapur ekki til af góðu því Hörður lenti í því árið 2017 að detta út af vinnumarkaði og segir hann það ekki hafa verið gott. „Ég er ekki alinn upp í því að gera ekki neitt og þetta var djöfullegur tími að gera ekki neitt. Ég er alinn upp á sauðfjárbúi og er rollukall í hausnum á mér þannig að mér datt þetta í hug, var heppinn og fékk hús og hef bara gaman af þessu. Ég geri eins mikið úr þessu og ég get, fer tvisvar á dag og gef. Mér var sagt þegar ég byrjaði að ég ætti að setja rúllu út og fara uppeftir á viku fresti en ég sagðist ekki vera nærri því svo vitlaus, þó ég væri tæpur“ segir hann og skellir upp úr.
En hvað skyldi vera svona skemmtilegast við þetta?
„Það er að sjá kindurnar fóðrast og dafna og svo náttúrulega að fá nýjar og sjá hvað þetta gerir í afurðum og annað. Svo þarf að vingsa það besta úr og hitt fer hina leiðina, handa bóndanum að éta,“ segir hann og bætir við hlægjandi: „Eins og á honum sést.“
Hörður er greinilega mikill ræktunarmaður í sér enda segir hann þennan áhuga alltaf hafa blundað í sér. „Maður er alinn upp við þetta og gat ekki komist hjá því að eitthvað af þessu færi í hausinn á manni.“
Hvernig er svo lífið á Nöfunum?
„Mér finnst það fínt. Það er gaman að vera hérna og hitta félagana. Reyndar hefur maður minna farið á milli húsa meðan þetta Covid varði en mér þykir þetta skemmtilegt og á góða félaga hérna sem eru í svipaðri stöðu og ég, hafa lítið annað að gera en að dunda við þetta. Svo droppar fólk við og fær að kíkja í húsin. Mér líkar þetta bara mjög vel og ekki síst að geta verið í sátt og samlyndi við allt og alla.“
Í fjárhúsinu hjá Herði er sauðurinn áberandi, fallegur á litinn og bísperrtur. Hörður segist hafa keypt hann af Jóhannesi Sigfússyni, bónda á Gunnarsstöðum í Þistilfirði. „Ég keypti hann sem hrútlamb að hausti en svo var hann geltur eftir að hann kom hingað og þar af leiðandi orðinn sauður. Þetta er hreinræktuð forystukind í báðar ættir. Þetta var nú bara eitt af því til að hafa gaman af. Það er ekki mikill arður af honum annað en ánægjan. Það reynir lítið á hann í svona búskap en hann er alltaf fyrsta kindin hér inn. Ef ég fer fyrir þær hér uppi á túni þá skokkar hann niður í rétt, það er ekki óþægð í honum.“
Þannig að það er vitglóra í forystufénu?
„Já, það sem er alvöru forystufé. Það eru alltaf einhverjir kjánar innan um og mislukkast en þá er bara ein leið fyrir þá, það er það fé sem kemur óorði á forystuféð. En þetta alvöru forystufé er ekki með neina vitleysu.“
Hörður lýsir því hvernig sauðurinn mætir fyrstur í réttina í göngum og aðrar kindur elta. En á sumrin virðist hann una sér einn. „Ég hef séð hann á sumrin en þá er hann ekki með mínum kindum, er bara einn. En ég held að ég hafi verið heppinn með þennan bara.“
Á von á 25 lömbum í vor
Nú nálgast sá tími sem gefur hvað mest í þessu kindastússi þegar lömbin fara að koma í heiminn og á Hörður von á kvarthundrað eftir því sem fósturtalningar sögðu til um. „Hér eiga að vera 25 lömb. Ég hleypti ekki á gimbrarnar. Það er ein geld en 14 eru með lömbum, ein er með þrjú. Það verður vonandi eitthvað að gera í smá stund í vor,“ segir hann og greinilegt að hann hlakkar til vorsins. Hann segist vera einn þar sem konan sé lítið í þessu með honum. „Hún truflar mig mjög lítið hérna,“ segir hann og rekur upp skellihlátur, „En hún kíkir hérna við og við,“ bætir hann við og leiðréttir sig með það að hún sé nú ekki að trufla hann neitt þó hún líti í húsin.
„Hér er gott að vera og mér líður vel. Fyrst ég gat ekki verið á vinnumarkaðinum lengur þá drepur maður tímann hérna. Ég lagaði til hérna, girti allt upp, henti ónýtum girðingum og tók til handinni. Þetta var hesthús þegar ég tók við þessu og breytti í fjárhús en þetta var reyndar fjárhús fyrir löngu og síðar gert að hesthúsi. Það er allt nýsmíðað inni. Það verður gaman að sjá hvernig ræktunin gengur og meðan maður getur dundað sé við þetta vona ég að ég verði hér áfram og mig langar til þess,“ segir Hörður í lokin áður en hann er kvaddur með góðum óskum um gott gengi í ræktun og sauðburði.
Áður birst í 13. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.