Team Tengill leggur í hann
Á morgun, 23. júní, hefst WOW Cyclothon hjólreiðakeppnin þar sem hjólað er í kringum Ísland og áheitum safnað til styrktar uppbyggingar Batamiðstöðvar á Kleppi. Í flokki B-liða er Team Tengill, sem samanstendur af starfsmönnum Tengils á Sauðárkróki og Hvammstanga, eins og sagt var frá í síðasta tölublaði Feykis.
Liðið keppir í boðsveitaflokki en þá þarf að minnsta kosti einn hjólreiðamaður að vera hjólandi í einu á keppnisleiðinni. Síðan þarf að fylgja ströngum reglum varðandi skiptingu þegar næsti hjólreiðamaður tekur við. Keppnisleiðin er þjóðvegur 1 með nokkrum undantekningum, samtals 1.358 km. Team Tengill hefur nú safnað 75.000 kr. en það er enn hægt að heita á liðið, á þessari slóð.
Undirbúningur hefur staðið yfir frá því í vor hjá strákunum og færðu þeir sig utandyra um leið og veður leyfði. Undirbúningurinn hefur aðallega falist í því að hjóla, hjóla og hjóla. Þeir hafa hjólað til vinnu og til baka í nokkur skipti ásamt því að hjóla lengri leiðir, eins og Miðfjarðarhringinn, að Staðarskála og til baka og til Blönduóss og til baka. Eins hefur liðið æft saman í nokkur skipti. Þá hefur verið farið frá Sauðárkróki og hjólað í boðsveitaforminu., eins og sagt er frá á vefnum Norðanátt.is.
Keppnin hefst á morgun og liðið leggur í hann suður yfir heiði í dag. Það er mikil tilhlökkun hjá liðinu og þeir segja móralinn vera mjög góðan. „Eina áhyggjuefnið er að ef hitastigið fer yfir 10 gráður og það verður logn þá verður það eitthvað verulega nýtt, því við höfum bara æft í roki, hita við frostmark og snjókomu eða slyddu.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.