Solveig Lára vígð á Hólum
Séra Solveig Lára Guðmundsdóttir var vígð af biskupi Íslands til embættis vígslubiskups í Hóladómkirkju í gær og lögðu margir leið sína heim að Hólum til að vera viðstaddir þessi merku tímamót.
Kirkjan var fullsetin og vígslunni varpað beint í kennslustofu í Hólaskóla, þar sem einnig var fullt útúr dyrum. Þá sátu jafnframt margir fyrir utan kirkjuna - nutu veðurblíðunnar og hlustuðu á hátíðarmessuna sem útvörpuð var í hátalarakerfi.
Solveig Lára er önnur konan á Íslandi sem tekur biskupsvígslu á eftir frú Agnesi Sigurðardóttur, biskupi Íslands, sem vígð var til embættisins fyrr í sumar. Vígsluvottar voru sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup á Hólum og sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti ásamt sex erlendum biskupum auk sr. Gylfa Jónssonar og Unnar Halldórsdóttur, djákna. Athöfnin hófst með göngu presta stiftisins, biskupa og vígsluþega til kirkju.
Kórar Hóladómkirkju og Möðruvallaklaustursprestakalls sungu við athöfnina og organistar voru Jóhann Bjarnason og Sigrún Magnea Þórsteinsdóttir.
Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir tekur við starfi vígslubiskups á Hólum þann 1. september næstkomandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.