Sólveig Arna ráðin leikskólastjóri Ársala
Sólveig Arna Ingólfsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri við leikskólann Ársali á Sauðárkróki en fram kemur á vef sveitarfélagsins að Sólveig Arna sé menntaður leikskólakennari frá Háskólanum á Akureyri. Tekur hún við af Guðbjörgu Halldórsdóttur sem stýrt hefur skólanum um skeið.
Ennfremur segir að Sólveig Arna eigi að baki langan starfsferil í leikskóla og starfaði hún bæði á Glaðheimum og í Furukoti áður en þeir voru sameinaðir í Leikskólann Ársali. Sólveig Arna er starfandi aðstoðarleikskólastjóri Ársala og hefur verið í þeirri stöðu síðan 2012 og segir í tilkynningunni að hún þekki því starfsemi og rekstur leikskólans Ársala vel.
„Framundan eru spennandi tímar á Leikskólanum Ársölum þar sem stefnt er á opnun nýrrar deildar í maí. Verið er að reisa nýja viðbyggingu við leikskólann sem mun hýsa tvær deildir. Með þessari viðbót verður hægt að bjóða öllum börnum 12 mánaða og eldri leikskóladvöl í leikskólum Skagafjarðar að loknu sumarleyfi. Stefnt er að því að inntaka nýrra barna fari fram 2-3 á ári eftir aðstæðum hverju sinni. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur þannig skipað sér meðal allra framsæknustu sveitarfélaga hvað aðgengi að leikskóla varðar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.