Skagfirsk sveifla á sópnum þegar Þórsurum var sópað heim í Þorlákshöfn

Lið Tindastóls sigraði lið Þórs úr Þorlákshöfn í kvöld í þriðja skiptið í einvígi liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildarinnar og eru því komnir áfram í undanúrslitin. Lið Tindastóls vann einvígið 3-0 og sópaði því Þórsurum út úr keppninni án vandræða. Sigurinn var nokkuð öruggur í kvöld, Stólarnir voru sterkari í síðari hálfleik og fögnuðu sigri, 88-76.

Leikurinn hófst einum og hálfrum tíma síðar en áætlað var þar sem dómararnir lentu í óhappi á Holtavörðuheiði. Þrátt fyrir það fór leikurinn ágætlega af stað, Lewis og Dempsey voru afgerandi í leik Tindastóls en hjá gestunum voru Govens og Grétar sjóðheitir. Þór náði forystunni upp úr miðjum fyrsta leikhluta og var yfir, 18-22, að honum loknum. Einhver doði var yfir Stólunum en Svabbi gaf tóninn í upphafi annars leikhluta og gerði sjö fyrstu stig Tindastóls. Dempsey kom síðan inn á eftir að hafa fengið talsverða hvíld og hóf að skora körfur í öllum regnbogans litum. Þórsararnir héngu engu að síður í skottinu á Stólunum og í leikhléi munaði aðeins tveimur stigum. Staðan 41-39 í hálfleik.

Þriðji leikhlutinn var frábær hjá Stólunum líkt og svo oft áður í vetur. Nú var það Ingvi sem reif liðið í gang. Á 80 sekúndum snemma í leikhlutanum átti Ingvi tvær stoðsendingar, stal boltanum tvisvar og gerði fimm stig og var hreint frábær í leikhlutanum. Þessi kraftur skilaði sér síðan í varnarleikinn þar sem Helgi Rafn fór fyrir sínum mönnum og skyndilega voru Stólarnir úti um allt og Þórsarar áttu í tómu basil með að finna góð skot. Ingvi kom heimamönnum í 60-50 eftir að hafa stolið boltanum og næstu átta stig voru Stólanna.

Þegar fjórði leikhluti hófst var staðan 70-55 og nú átti að reyna að róa leikinn og það tókst að ágætlega. Grétar fór meiddur af velli þegar fjórar mínútur lifðu og staðan 80-66. Þrátt fyrir að hann hafi verið einna öflugastur Þórsara í kvöld þá gerðu gestirnir lokatilraun til að koma sér inn í leikinn. Baldur Þór og Govens gerðu 3ja stiga körfur og Govens hitti úr einu víti til og sjö stigum munaði þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Lið Tindastóls var hins vegar einfaldlega betra þegar á hólminn var komið og steig aftur upp í vörninni og þá var sigurinn í höfn.

Enn og aftur átti Dempsey frábæran leik en hann skilaði 26 stigum, 10 fráköstum og 4 stolnum boltum. Ingvi Ingvars gerði 12 stig, stal 4 boltum og átti 5 stoðsendingar. Svabbi spilaði vel í kvöld, gerði 11 stig og tók 7 fráköst og Lewis var alveg ágætur með 15 stig og 7 fráköst. Pétur spilaði ágætlega þrátt fyrir hálf vonlausa skotnýtingu en hann átti 8 stoðsendingar og þar á meðal nokkrar glæsilegar troðslusendingar á Dempsey. Þá var Viðar Ágústs góður í kvöld; spilaði vörnina vel á Govens og hélt honum nánast niðri á löngum köflum og skilaði góðu dagsverki í sókninni þar sem hann ógnaði vel.

Í liði Þórs var Govens stigahæstur með 24 stig og meirihluti þeirra kom í fyrri hálfleik. Hann var líka með átta tapaða bolta og var hálfgerður þreytubragur á honum í kvöld. Grétar Ingi Erlendsson gerði 20 stig en þessi stóri kappi tók aðeins 3 fráköst í leiknum. Tómas Ingi náði sér ekki á strik í kvöld og við því máttu gestirnir ekki.

Það er því ljóst að Tindastóll og KR hafa tryggt sæti sín í undanúrslitum og nú er bara að bíða og sjá hvaða lið fylgja þeim. Keflavík og Njarðvík eru yfir 2-1 í sínum viðureignum og ef þau komast áfram verða Njarðvíkingar með hinn sjóðheita Stefan Bonneau mótherjar Tindastóls.

Stig Tindastóls: Dempsey 26, Lewis 15, Ingvi 12, Svavar 11, Helgi Viggós 7, Viðar 7, Helgi Margeirs 5, Hannes 3 og Pétur 2.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir