Skagafjörður í 4. sæti hamingjulistans yfir búsetuskilyrði - Ný könnun landshlutasamtaka

Það er óhætt að segja að þau sem nutu útiverunnar um helgina hafi hver á sinn hátt notið náttúru, friðsældar og loftgæða eins og margir töldu með mikilvægustu og bestu búsetuskilyrðunum á Norðurlandi vestra. Mynd: PF
Það er óhætt að segja að þau sem nutu útiverunnar um helgina hafi hver á sinn hátt notið náttúru, friðsældar og loftgæða eins og margir töldu með mikilvægustu og bestu búsetuskilyrðunum á Norðurlandi vestra. Mynd: PF

Sagt var frá því hér á Feyki.is í gær að Vestmannaeyjar, Akureyri og Eyjafjörður væru þau svæði sem best koma út í heildarstigagjöf í nýrri skoðanakönnun meðal íbúa landsins á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags. Vífill Karlsson, annar skýrsluhöfunda, hefur tekið saman helstu niðurstöður fyrir Norðurland vestra.

Íbúasvæði Norðurlands vestra eru þrjú í könnuninni, þ.e. Vestur-Húnavatnssýsla, Austur-Húnavatnssýsla og Skagafjarðarsýsla og var heildarfjöldi svara 809. Af þessum þremur svæðum voru íbúar Vestur-Húnavatnssýslu jákvæðastir í afstöðu til síns sveitarfélags og í samanburði við önnur íbúasvæði eru konur á því svæði jákvæðastar í garð síns sveitarfélags. Neikvæðastir í afstöðu til síns sveitarfélags voru íbúar í Austur-Húnavatnssýslu.

Búsetuskilyrði
Í tilkynningu frá Vífli Karlssyni, annars skýrsluhöfundar, kemur fram að íbúar í báðum Húnavatnssýslum meti náttúru, friðsæld og loftgæði mikilvægustu og bestu búsetuskilyrðin. Í samanburði við önnur svæði er mesta jákvæðnin einnig hjá Húnvetningum með þjónustu við útlendinga. Vestur-Húnvetningar eru einnig ánægðastir í samanburði við önnur svæði með heilsugæslu og málefni aldraðra. Verst komu Austur-Húnvetningar út í samanburði við önnur búsetusvæði hvað varðar háskóla, laun og menningu.
Helsta óánægjuefni Vestur-Húnvetninga í samanburði við önnur svæði er vegakerfið.
Skagfirðingar voru jákvæðastir allra í samanburði með málefni fatlaðra og voru einnig ofarlega á lista þeirra jákvæðustu með framhaldsskóla. Aftur á móti reyndust Skagfirðingar meðal þeirra óánægðustu með íbúðaframboð. Í heildarstigagjöf fyrir landsvæðin 24 og þau 40 búsetuskilyrði sem spurt var um var Skagafjarðarsýsla í 4. sæti, Vestur-Húnavatnssýsla í 11. sæti og Austur-Húnavatnssýsla í 20. sæti.

Breytingar frá könnun árið 2017
Þegar svör úr könnuninni nú voru borin saman við hliðstæða könnun árið 2017 sjást breytingar á viðhorfi íbúa á Norðurlandi vestra í ýmsum málaflokkum. Í Vestur-Húnavatnssýslu telja íbúar mikilvægi þjónustu við útlendinga hafa aukist og telja stöðu þess málaflokks einnig hafa batnað mest. Nettengingar telja þeir einnig hafa batnað mikið, sem og framboð leiguíbúða, öryggi, framboð íbúða til sölu, umferð og málefni aldraðra. Sá málaflokkur sem þeir telja að hafi versnað mest frá 2017 er vöruverð og þar á eftir koma tónlistarskólar og framhaldsskólar, sem og almenningssamgöngur sem Vestur-Húnvetningar telja þó ekki jafn mikilvægt málefni og fyrir þremur árum.

Austur-Húnvetningar telja þjónustu við útlendinga hafa batnað mest að gæðum og mikilvægi frá 2017 og þeir telja einnig að unglingastarf, leikskóla- og grunnskólaþjónusta hafi aukist mest að mikilvægi. Sömuleiðis segja þeir mikilvægi vöruverðs fara vaxandi en telja þann þátt líka hafa breyst mest allra til hins verra frá 2017. Þeir telja menningu og almannasamgöngur einnig hafa þróast til verri vegar.

Mesta breyting til batnaðar að mati Skagfirðinga frá könnun 2017 er hvað varðar framboð leiguíbúða, netsamband, heilsugæslu og laun. Þeir telja mikilvægi íbúðaframboðs, leik- og grunnskóla, sem og vegakerfis hafa aukist mest. Aftur á móti telja þeir stöðu menningarmála og almenningssamgangna hafa versnað mest.
/Samantekt Vífils Karlssonar, hagfræðings Ph.D. og ráðgjafa SSV.

Tengd frétt: Vestmannaeyingar, Akureyringar og Eyfirðingar ánægðastir í nýrri könnun landshlutasamtaka

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir