Sigur í síðasta leik sumarsins
Það var norðanátt og rigning í lokaleik Tindastólsstúlkna þegar þær tóku á móti BÍ/Bolungarvík á Sauðárkróksvelli í dag. Leikurinn fór rólega af stað en Tindastóll var sterkari aðilinn í leiknum.
Á 11. mínútu átti Leslie skot að marki en markmaður BÍ varði vel út í teig og kom Bryndís Rún á fullri ferð en varnarmaður náði að renna sér fyrir skot hennar. Tindastóll stjórnaði leiknum og á 28. mínútu sendi Leslie góða stungusendingu á Bryndísi sem komst ein á móti markmanni en lét verja frá sér. En á 42. mínútu átti sér stað furðulegt atvik þegar Bryndís átti í baráttu við einn varnarmann BÍ, kemur boltanum yfir á Leslie sem skorar, en dómarinn ákveður að stoppa leikinn þar sem varnarmaður BÍ lá eftir, og dæmir dómarakast og BÍ sparkar boltanum til Tindastóls. Markalaust í hálfleik og átti BÍ ekki eitt færi í fyrri hálfleik.
BÍ mætti ákveðnari til leiks í seinni hálfleik án þess að skapa sér nokkuð. Á 60. mínútu átti Leslie tvo æfingabolta á markmann BÍ og mínútu síðar átti Bryndís góða fyrirgjöf sem Leslie skallaði rétt yfir. En á 79. mínútu tókst loksins að brjóta ísinn eftir að góður markvörður BÍ átti misheppnað útspark sem fór beint á Leslie rétt fyrir utan teig og hún leggur boltann fyrir sig og skorar með góðu skoti. Eftir markið voru Tindastólsstúlkur meira ógnandi og átti Rakel Svala skot í þverslá eftir fyrirgjöf frá Leslie. Til viðbótar áttu Stólarnir nokkur skot sem voru ekki nógu markviss. Vörnin spilaði sérstaklega vel í dag, sem sést á því að BÍ átti ekki færi í leiknum og spiluðu varnarmenn Tindastóls boltanum út úr vörninni í flestum tilvikum. /AVH
.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.