Sigrún Stella með eitt vinsælasta lag dagsins
Vestur-Íslendingurinn Sigrún Stella Bessason er að gera það gott með lag sitt Sideways, eitt það vinsælasta á Íslandi í dag, en það situr ofarlega á vinsældalistum bæði hjá Rás 2 og Bylgjunni. Þrátt fyrir að söngkonan hafi alist að hluta til upp á Akureyri náum við að sjálfsögðu að tengja hana vestur yfir Öxnadalsheiðina bæði í Skagafjörðinn og Austur-Húnavatnssýsluna.
Sigrún Stella býr í Toronto í Kanada, fædd í Winnipeg árið 1979 en ólst upp í Brekkunni á Akureyri frá 7 ára aldri. Rúmlega tvítug flutti hún aftur vestur yfir haf þar sem hún hefur unnið að tónlist sinni.
Sigrún Stella er dóttir Haraldar Bessasonar frá Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði og Margrétar Björgvinsdóttur, ættuð frá Vatnshlíð í Skörðum. Haraldur var þjóðkunnur fyrir störf sín vestan hafs og austan, fyrrverandi háskólarektor á Akureyri og prófessor í Winnipeg.
„Við pabbi vorum bestu vinir en hann lést fyrir tíu árum síðan, þegar ég var þrítug. Að missa foreldri er ekki auðveldasta verkefnið sem maður fær í þessu lífi en ég hefði mátt tækla það aðeins betur en ég gerði. Þegar hann kvaddi ákvað ég að vera sterk en það er afar mikill misskilningur að það sé merki um að maður sé sterkur af því að maður leiti sér ekki hjálpar í sorginni,“ segir Sigrún Stella í viðtali í Vikunni sem kom út 6. febrúar sl.
En hér fyrir neðan má heyra lagið Sideways með þessari flottu tónlistarkonu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.