Senn verður skrifað undir samning um menningarhús á Sauðárkróki

Fyrirhuguðu menningarhúsi á Sauðárkróki er ætlað að tengjast Safnahúsinu á Flæðum og mun það hýsa m.a. sýningarsal, bókasafn, listasafn og skjalasafn. Mynd: PF.
Fyrirhuguðu menningarhúsi á Sauðárkróki er ætlað að tengjast Safnahúsinu á Flæðum og mun það hýsa m.a. sýningarsal, bókasafn, listasafn og skjalasafn. Mynd: PF.

Fram kom í setningarávarpi Sigfúsar Inga Sigfússona, sveitarstjóra svf. Skagafjarðar, er Sæluvikan formlega hófst, að nú væru menningarmála- og fjármálaráðuneytin að ganga frá samningi um framkvæmd menningarhúss á Sauðárkróki og að ritað yrði undir samning á næstu dögum.

Sagði hann um sérlega ánægjuleg tíðindi að ræða þar sem 23 ár væru liðin síðan ríkisstjórn Íslands tók þá ákvörðun að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta þar aðstöðu til menningar- og listastarfsemi. Á grunni þeirrar ákvörðunar undirrituðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menningarmálaráðherra, Gísli Gunnarsson, þ.v. forseti sveitarstjórnar Svf. Skagafjarðar og Agnar H. Gunnarsson, þá oddviti Akrahrepps, undir samkomulag árið 2005 um uppbyggingu menningarhúss í Skagafirði.

„Samkomulagið var byggt á niðurstöðu samstarfshóps sem var skipaður fulltrúum menntamálaráðuneytis og sveitarfélaganna tveggja í Skagafirði, annars vegar var gerð tillaga um endurbætur á félagsheimilinu Miðgarði, þar sem áhersla yrði lögð á tónlistarflutning, stærri hátíðir og ráðstefnuhald og þeim framkvæmdum lauk í Sæluviku 2009 með hinu glæsilega Menningarhúsi Miðgarði.

Hins vegar var gerð tillaga um að byggt yrði við núverandi Safnahús Skagfirðinga á Sauðárkróki og þar yrði menningarmiðstöð með áherslu á fræðastörf og sýningar sem hýsi m.a. sýningarsal, bókasafn, listasafn og skjalasafn. Nú hyllir sem sagt undir að hönnun og framkvæmdir geti farið af stað á næstu misserum í kjölfar undirritunar samnings á milli sveitarfélaganna og ráðherranna tveggja,“ sagði Sigfús Ingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir