Reyndi að ræna systur sinni í Garðabæinn

Meistari Óskar Smári stígur stríðsdans í Stjörnufans. AÐSENDAR MYNDIR
Meistari Óskar Smári stígur stríðsdans í Stjörnufans. AÐSENDAR MYNDIR

Knattspyrnukappinn snyrtilegi, Óskar Smári Haraldsson frá Brautarholti í Skagafirði, gerði á dögunum 2. flokk kvenna hjá Stjörnunni að Íslandsmeisturum. Kappinn hefur spilað með liði Tindastóls í 3. deildinni í sumar en gert út frá Garðabænum. Óskar Smári segist gríðarlega stoltur af árangrinum en hann er aðalþjálfari 2. flokks kvenna en einnig er hann aðstoðarþjálfari í meistaraflokki kvenna hjá Stjörnunni sem er með lið í Pepsi Max deildinni.

Feykir sendi nokkrar spurningar á Óskar Smára og spurði út í sumarið í boltanum og fyrst var spurt hvort góður grunnur væri til staðar hjá Garðbæingum. „Grunnurinn er góður, já. Þegar ég tek við liðinu fyrir tveimur timabilum þá hurfu margir leikmenn í meistaraflokki á braut. Ungir leikmenn sem voru þá í 2. flokki fengu stór tækifæri með meistaraflokki það ár og þá var til að mynda enginn leikmaður hjá mér á elsta ári í 2. flokki. Margar stelpur í 3. flokki, og nokkrar úr 4. flokki, tóku því þátt í Íslandsmótinu í fyrrasumar og sluppum við rétt svo við fall það árið. Það jákvæða við það var að liðið var óbreytt á milli ára,“ segir Óskar og heldur áfram. 

„Í ár breyttum við örlitið út af vananum hvað varðar væntingar – tókum einn leik í einu. Ég einfaldaði hlutina á æfingasvæðinu, meira af keppnum og gleði og minna af taktískum hlutum.Við fengum á okkur flest mörk tímabilið á undan og skoruðum flest, þannig að við vildum laga varnarleikinn en reyna að halda í það jákvæða sem við gerðum sóknarlega. Stelpurnar eru góðar í transitioni og æfðum við það mikið, í þeim frasa leiksins þegar við vinnum boltann á ákveðnum stöðum þá vorum við hættulegar. Mörkin urðu færri sem við skoruðum þetta árið, en við fengum einungis á okkur níu mörk og skorum 29. Orðatiltækið „sókn vinnur leiki, en vörn vinnur titla“ á því vel við í ár. Árið áður skoruðum við 41 mark en fengum á okkur 42!“

Hver er lykilþátturinn í að ná svona árangri? „Það eru nokkrir þættir sem spila hér inn í að mínu mati. Stemningin í hópnum var mjög góð, betri en í fyrra. Leikmenn ári eldri og rótering í liðinu töluvert minni. Baráttan um að vera í liðinu var meiri og stelpurnar vissu að þær þyrftu að sýna góða frammistöðu leik eftir leik til þess að vera í liðinu. Stúlkurnar sýndu þvílikan metnað og vinnusemi í Covid-pásunni rétt fyrir tímabil, þær fengu sendar æfingar sem þær framkvæmdu heima. En það sem ég held að hafi mest að segja er hvernig við settum upp æfingatímann og hvernig Kristján Guðmundsson og Andri Freyr komu inn í hlutina,“ segir Óskar og bætir við að Andri Freyr eigi rætur sínar að rekja í Skagafjörðinn þar sem engin önnur en Monika frá Merkigili er langamma hans. „Sem gerir það að verkum að drengurinn er frændi minn!“

Kristján er meistaraflokksþjálfari og Andri er aðstoðarmaður ásamt því að vera styrktar- og þolþjálfari. „Við æfðum á sama tíma og meistaraflokkur, á sama stað, aðalvellinum, þannig að stelpur sem voru að mæta á æfingar hjá 2. flokki kvenna höfðu meistaraflokksþjálfarann að fylgjast með sér á öllum æfingum. Það voru margir leikmenn sem fengu tækifærið á æfingum hjá meistaraflokki og samspilið á milli meistaraflokks og 2. flokks var mikið.“ 

Nú er meistaraflokkur Stjörnunnar með mjög ungt lið í Pepsi Max deild kvenna. Spiluðu margir leikmenn sem spila með meistaraflokk einnig með 2 flokk? „Nei, ég get ekki sagt það. Ef það var langt á milli leikja hjá meistaraflokki þá komu leikmenn, sem ekki höfðu fengið minutur og voru gjaldgengar í leiki 2 flokks, og spilupu með 2 flokki. KSÍ gerði okkur einnig lítinn greiða með því að setja á leik á sama dag tvisvar sinnum í sumar hjá meistaraflokki, 2. og 3 flokki. Samspilið var hinsvegar gott á milli okkar þjálfaranna. Meistaraflokkshópurinn okkar er ungur, en þar spila margar stelpur stórt hlutverk sem ennþá eru í 2. flokki. Til að mynda spilaði Sædís Rún Heiðarsdóttir engan leik með 2. eða 3. flokki, þar sem hún var í liðinu í meistaraflokk. Aníta Ýr Þorvaldsdóttir spilaði 1 leik, Jana Sól 2 leiki og ég get haldið áfram að telja upp stelpurnar í meistaraflokk sem eru á 2 fl aldri sem eru að spila í meistaraflokk. Það voru svona ein til tvær í leik hjá 2 fl sem tóku þátt í leiknum sem voru að æfa og í hóp með meistaraflokk, en þá var það út frá minutufjölda í leikjum með meistaraflokknum. Kannski það sem er skemmtilegast við þetta sumar er að allir leikir hjá 2 flokk kvenna voru jafningjaleikir. Við unnum held ég einn leik 6-0, en annars voru allir aðrir leikir jafnir og oftar en ekki gátu úrslit dottið báðum megin í lok leikja. Við lentum t.d í því í fyrsta leik gegn HK, liði sem féll í sumar að markmaðurinn okkar meiðist í fyrri hálfleik og útileikmaður klárar 60 minutur í markinu. Við áttum 1x skot á markið í þeim leik og unnum hann 1-0.“ 

Þú hefur verið leikmaður í mörg ár og haft marga skemmtilega þjálfara í gegnum tíðina. Nýtist það í þjálfuninni? „Já, alveg 100%. Ég hef líka verið ofboðslega heppinn með þá þjálfara sem ég hef verið með sem leikmaður. Á minum þjálfaraferli hef ég oft leitað til fyrrum þjálfara minna og fengið góð ráð. Til að mynda átti ég klukkutíma spjall við Donna fyrir síðasta leik sumsins hjá stelpunum. Siggi pabbi hans hefur einnig staðið þétt við bakið á mér frá því ég byrjaði og svo eru menn eins og Bjarki, Gaui, Jamie og fleiri góðir sem hafa alltaf verið til staðar fyrir mig. Ég hins vegar er óendanlega þakkláttur að hafa fengið að vinna með Kristjáni Guðmundssyni í þessi tvö ár. Hann hefur kennt mér svo ofboðslega margt þegar kemur að knattspyrnu. Hann er kröfuharður og á það til að láta mig heyra það og skammast í mér en svo fæ ég hrósið þegar það á við. Hann er minn mentor í þjálfun og verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir það sem hann hefur kennt mér.“

Nú voru stúlkur úr liði Tindastóls að æfa með 2. flokki Stjörnunnar. Geturðu sagt okkur aðeins frá því? „Já, það er ósköp einfalt í raun. Þegar líður á tímabilið þá fara stelpurnar að norðan, sem eru búsettar yfir veturinn í Reykjavík, til Reykjavíkur og þurfa því að halda sér við með því að mæta á æfingar. Guðni og Jónsi höfðu samband við mig og spurðu hvort það væri ekki í lagi að þær myndu mæta inn hjá mér á æfingar hjá 2. flokki. Þannig myndu þær haldast áfram saman sem hópur. Þetta var algjört win win dæmi þar sem þær þurftu á æfingum að halda, til þess að halda sér í formi fyrir lokaátökin í Lengjudeildinni, og á sama tíma hækkar það tempóið á æfingum hjá mér. Þær eiga sinn hlut í þessum titli með því að lyfta tempóinu hjá okkar liði á hærra stig og er ég gríðarlega ánægður að hafa fengið þær inn til mín á æfingar síðasta mánuðinn.“ 

Ertu þokkalega sáttur við fyrirliða kvennaliðs Tindastóls og árangur liðsins? „Prinsessan á Brautarholti stóð sína vakt í vörninni í sumar með miklum sóma, þannig að ég er sáttur með hana. Ég reyndi nú að ræna henni til Garðarbæjar fyrir tímabilið en, kannski sem betur fer, án árangurs. Meistaraflokkur kvenna hefur verið í mikilli sókn síðustu ár og er þetta afrakstur góðs yngri flokka starfs ásamt klókindum á vali á erlendum leikmönnum sem skila liðinu þessum magnaða árangri. Þær eiga allt það lof sem þær eru að fá skilið og óska ég þjálfurum, stjórnarmönnum, leikmönnum og stuðningsmönnum enn og aftur til hamingju með sigur í Lengjudeildinni í ár og hlakka ég til að mæta á KS völl næsta sumar að sjá þær etja kappi við þær bestu,“ segir Óskar Smári að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir