Öruggur sigur Stólanna á kanalausum Grindvíkingum
Tindastólsmenn hafa sjaldnast riðið feitum hesti úr Grindavík en á því varð breyting í kvöld. Stólarnir unnu sannfærandi sigur á kanalausum Suðurnesjaköppum, voru 15 stigum yfir í hálfleik og kláruðu leikinn af öryggi, 77-100. Atkvæðamestir í liði Tindastóls voru Darrel Lewis og Jerome Hill en lykilatriðið var að Stólarnir höfðu yfirburði undir körfunni og tóku hátt í 20 fráköstum meira en heimamenn.
Lið Tindastóls var ekkert að tvínóna við hlutina, strákarnir spruttu af stað og komust í 0-8 og nýttu sér styrk sinn í teignum afar vel í fyrsta leikhluta. Lewis, Hill og Helgi Viggós voru þar afgerandi en heimamenn minnkuðu þó muninn í 19-21 en að loknum fyrsta leikhluta var staðan 20-26 eftir að Helgi Margeirs hafði aðeins velgt skotvopnið með einum þristi.
Hann bætti við tveimur þristum snemma í öðrum leikhluta og kom Stólunum ellefu stigum yfir, 25-36. Raunar skelltu gestirnir í lás í vörninni á löngum kafla því heimamenn gerðu ekki stig í sex mínútur en á meðan gerðu Stólarnir 16 stig. Staðan breyttist semsagt úr 25-30 í 25-46 og Tindastólsmenn komnir með alla stjórn á leiknum. Grindvíkingar voru þó drjúgir síðustu mínútu leikhlutans og staðan í hálfleik 33-48.
Addú datt loks í gang í upphafi þriðja leikhluta en hann skaut tómum múrsteinum allan fyrri hálfleikinn. Tveir dýsætir þristar á fyrstu mínútu leikhlutans gáfu Grindvíkingum til kynna að Stólarnir voru ekkert að fara slaka neitt á og staðan 56-74 þegar fjórði leikhluti hófst. Mesti móðurinn var nú úr heimamönnum og Stólarnir komust mest 29 stigum yfir, 68-97, þegar Ingvi gerði einu körfu sína í leiknum. Grindvíkingar löguðu svo stöðuna aðeins á lokamínútunum þegar yngri bekkingar voru komnir inn á. Lokatölur 77-100.
„Það er aðstöðumunur á liðunum, þá vantar útlending. En það er alltaf hættulegt að koma inn í svoleiðis aðstæður,“ sagði Helgi Margeirs í viðtali við Vísi.is að leik loknum og bætti við: „Við spiluðum einfalt í sókninni og vorum ákveðnir í vörninni og þetta gekk vel upp.“ Hann segir að hlutirnir hafi gengið ótrúlega vel eftir að Jou Costa tók við af Pieti Poikola, hann sé búinn að kveikja neista í mönnum á ný. „Við erum á fjórðu viku með honum og liðið er orðið eins og það var í fyrra. Nú verður ekki aftur snúið og við erum á uppleið,“ sagði Helgi.
Sigurinn í kvöld var mikilvægur en fyrir leikinn voru bæði Tindastóll og Grindavík í 7.-10. sæti með átta stig. Darrel Lewis var með 24 stig í kvöld og átta fráköst en Jerome Hill setti 19 stig og hirti 15 fráköst. Þá voru bekkjarbræðurnir Flake og Helgi Margeirs öflugir, Flake með 18 stig og átta fráköst en Helgi gerði 15 stig, allt þriggja stiga skot en hann var með fimm af átta í nýtingu. Þá setti Hannes niður tvö 3ja stiga skot á lokamínútunum. Stólarnir hirtu 55 fráköst en Grindvíkingar 37 og þar lá hundurinn grafinn.
Stólarnir eru með 50% árangur það sem af er móti, fimm sigra og fimm töp, en í síðasta leik fyrri umferðar Dominos-deildarinnar koma skólapiltarnir í FSu í heimsókn en þeir hafa verið ansi sprækir eftir að hafa fengið Christopher Woods til liðs við sig. Það má því gera ráð fyrir hörkuleik í Síkinu þann 17. desember.
Stig Tindastóls: Lewis 24, Hill 19, Flake 18, Helgi Margeirs 15, Helgi Viggós 8, Arnþór 8, Hannes 6 og Ingvi 2.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.