Opnunarræða Druslugöngunnar á Sauðárkróki árið 2023

Góðan dag og verið öll hjartanlega velkomin á samstöðufund Druslugöngunnar á Sauðárkróki. Ég heiti Erla Einarsdóttir og er helmingurinn af skipulagsnefnd göngunnar í ár. Ég vil byrja á því fyrir hönd nefndarinnar að þakka fyrir veitta styrki, stuðning og aðstoð við framkvæmd viðburðanna Druslugöngunnar og Preppkvöldsins. Við þökkum Gránu Bistro innilega fyrir frábært preppkvöld, fyrir alla hvatninguna, aðstoðina og velviljann í okkar garð. Við þökkum Myndun kærlega fyrir breytinguna á stóra borðanum okkar. Við þökkum Sauðá Restaurant innilega fyrir að gefa okkur drykki fyrir gönguna. Við þökkum Nýprent æðislega fyrir allan stuðninginn og velviljann, Steinull fyrir styrkinn, Sauðárkróksbakaríi fyrir veitta aðstoð, pepp og almenna góðvild í alla staði, Binna Rögnvalds sem er alltaf jafn frábær og boðinn og búinn til að græja og gera, Kára Mar, húsverði í Árskóla, fyrir að vera tilbúinn til að stökkva til í sumarfríinu sínu og aðstoða okkur við upphaf göngunnar. Við þökkum Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir jákvæðni og hvatningu í okkar garð og svo öllum hinum fyrirtækjunum, stofnununum og einstaklingunum sem hvöttu okkur og styrktu. Þið eruð öll mikilvæg fyrir okkur og baráttuna fyrir að gera Skagafjörð að betra samfélagi fyrir þolendur kynferðisofbeldis og fjölskyldur þeirra og bara fyrir öll. Síðast en ekki síst vil ég þakka fjölskyldunni minni fyrir endalausa þolinmæði undanfarnar vikur og alla aðstoðina við framkvæmd göngunnar og Preppkvöldsins og „manni“ ársins 2022 samkvæmt vali lesenda Feykis, Tönju Ísfjörð Magnúsdóttur því án hennar frumkvæðis og elju hefði Druslugangan einfaldlega ekki verið haldin í Skagafirði ennþá. Takk endalaust takk elsku flotta og frábæra hamhleypa Tanja Ísfjörð.

Þema Druslugöngunnar í ár er svolítið svona „Til baka til upphafsins“ eða „Litið yfir farinn veg“ og „Af hverju Drusluganga“?

Það þarf ekki nema líta í kringum sig í heiminum í dag til þess að sjá hvers vegna þörfin fyrir viðburði eins og Druslugönguna hefur síst minnkað. Nauðganir eru notaðar sem vopn í stríðinu í Úkraínu eins og öllum stríðum í heiminum. Öfga hægri öfl eru að ná tökum í pólitík og stofnunum víða í kringum okkur með sínar hugmyndir um að svipta konur og stúlkur réttinum til að ráða yfir líkama sínum sjálfar og taka til baka mannréttindi og öryggi kvenna, LGBTQ+ fólks, innflytjenda, svarts fólks og hreinlega allra sem eru ekki hvítir, gagnkynhneigðir karlmenn og sem þessir hópar hafa lagt óendanlega mikið á sig til að ná.

Feðraveldið er í dauðateygjunum í vestrænum ríkjum og berst eins og ljón fyrir lífi sínu. Við megum ekki sofna á verðinum því mannréttindin okkar eru ennþá verulega brothætt og við getum misst þau með einu pennastriki á Alþingi. Þar er nefnilega líka fólk sem hefur opinberað að það hugsar ansi líkt og þessi öfga hægri öfl í kringum okkur, því miður.

Á Íslandi fyllti Jordan Petterson Hörpuna í fyrra. Á Íslandi er góður slatti af ungum mönnum sem dáist að og aðhyllist skoðanir Andrew Tate en hann hefur verið kærður fyrir kynferðisofbeldi og mansal m.a. Andrew Tate dýrkar Jordan Petterson og hefur vægast sagt hatursfullar skoðanir á konum. Ef þið vitið ekki hverjir þessir menn eru, gúgglið þá og sjáið hvað við erum m.a. að berjast við.

Í vestrænum ríkjum eru hættulegustu hryðjuverkamennirnir ungir menn, yfirleitt hvítir, sem eru reiðir og frústreraðir vegna þess að konur hafa neitað þeim um kynlíf. Þeir hlusta á skoðanir manna eins og Tate og Petterson og telja sig hafa rétt á kynlífi með hverri þeirri konu sem þeim sýnist. Þeir hata konurnar sem neita þeim og reiðin brýst út í skotárásum á skóla og á götum úti m.a. Nýlega handtók lögreglan á Íslandi 2 unga menn sem samkvæmt fréttum aðhyllast svona öfga hægri skoðanir og ætluðu mögulega að framkvæma „meinta“ árás á Alþingisfólk. Druslugangan þarf svo sannarlega að halda áfram sinni baráttu, það er ekkert vafamál í mínum huga.

Svo langar mig til að segja ykkur nokkrar af mínum persónulegu ástæðum, það sem kemur upp í huga minn þegar spurningin „Afhverju Drusluganga ?“ og „fyrir hver erum við að þessu?“.

Fyrir mitt leiti er svarið svona:

Ég legg blóð svita og tár í að leggja mitt af mörkum við framkvæmd Druslugöngunnar á Sauðárkróki...

-Fyrir vinkonur mínar og vini sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi og ekki fengið þann stuðning sem þau svo lífsnauðsynlega þurftu á að halda til að komast í gegnum afleiðingarnar. Já ég segi í gegnum því þú kemst ekki yfir afleiðingar kynferðisbrots, þú ferð í gegnum þær og það er virkilega erfitt og sársaukafullt ferli sem tekur á, tekur tíma, getur jafnvel tekið sum alla æfina og sum lifa ekki af.

-Fyrir dóttur mína sem þurfti að flýja Skagafjörð, æskustöðvarnar sínar, mínar, afa síns, langafa, langalangafa og -ömmu o.s.frv., vegna drusluskömmunar og rætinnar gerendameðvirkni sem ekki sér enn fyrir endann á.

-Vegna orða meðferðaraðila dóttur minnar í endurhæfingunni hennar sem bað hana um að reyna að forðast að koma í Skagafjörðinn á næstu misserum því það hefði svo slæm áhrif á heilsuna hennar. Já þið heyrðuð rétt, það er talið heilsuspillandi fyrir hana að koma í Skagafjörð! Hún getur svo sannarlega ekki kallað Skagafjörð „Heilsueflandi Samfélag“, því miður. Ég kalla hér með eftir nauðsynlegum úrbótum í þessum málum og skora á Sveitarstjórnina og Skagfirðinga alla að girða sig í brók og sýna vilja til úrbóta í verki svo öll geti kallað samfélagið okkar heilsueflandi, ekki bara í orði heldur á borði!

-Fyrir þolendur og fjölskyldur þeirra sem hafa í tuga- ef ekki hundruðatali flúið Skagafjörð vegna þöggunar, drusluskömmunar og gerendameðvirkni.

-Fyrir þolendur og fjölskyldur þeirra sem hafa þrátt fyrir áðurnefnt ákveðið að vera áfram í Firðinum okkar fagra og reyna að þrauka og berjast fyrir betra samfélagi.

-Fyrir æskuvinkonu mína sem er öryrki vegna afleiðinga kynferðisofbeldis.

-Fyrir vinkonur og kunningja sem hafa látist fyrir aldur fram vegna afleiðinga kynferðisofbeldis.

-Fyrir börnin mín sem fengu minna af tíma og orku frá mömmu sinni í æsku en þau áttu skilið vegna afleiðinga kynferðisofbeldis.

-Og að lokum fyrir sjálfa mig, því með þrotlausri baráttu við afleiðingar kynferðisofbeldis, sem ég hélt oft að ég myndi tapa og sem gerði mig að öryrkja, stend ég uppi sterkari en nokkru sinni eftir að hafa farið í gegnum afleiðingarnar og komist út hinum megin í sæmilega heilu lagi. Og ég leyfi mér alveg hiklaust að klappa mér á bakið og vera stolt af því.

Druslugangan í fyrra var ákveðinn vendipunktur í minni vegferð og sýndi mér það svo skýrt og greinilega að VIÐ ERUM STERKUST SAMAN!!! ÁFRAM DRUSLUR!!!

Njótið dagsins og samverunnar og svo sjáumst við aftur enn sterkari saman að ári. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir