Opnun sýningar Devlin Shea í Gúttó
Opnun sýningarinnar „The Contours of a Migration“ var í Gúttó á Sauðárkróki í gær en um er að ræða sýningu á málverkum og teikningum eftir listakonuna Devlin Shea. Myndlistasýningin er upphafið á samvinnu milli Nes listamiðstöðvar og Sólons myndlistarfélags á Sauðárkróki.
Sýningin er úrval mynda sem Devlin hefur unnið að í fimm mánaða dvöl sinni í Nes listamiðstöð og sagðist hún hafa haft gaman af því að sjá hvernig listaverk hennar hafa þróast og tekið breytingum á því tímabili sem hún hefur dvalið hér á landi.
„Í fyrstu gerði ég mikið af litríkum myndum af fólki og dró þá innblástur að miklu leyti frá Kántrýsetrinu. Einnig tók ég ljósmyndir af persónum í gömlum bíómyndum sem voru sýndar í sjónvarpinu á listasetrinu,“ útskýrir Devlin fyrir blaðamanni Feykis.
„Síðar fór ég að einbeita mér að svarthvítum myndum en þá dró ég innblástur frá umhverfinu en persónurnar mínar bregða áfram fyrir í þeim myndum,“ bætir hún við. Aðspurð um af hverju hún hóf að mála í svarthvítu þá svarar hún að hún hafi í raun oft upplifað umhverfið og náttúruna á Íslandi á þann veg.
Enn gefst tækifæri til að skoða fallegar myndir Devlin í Gúttó í dag, laugardag, og á morgun, sunnudag, frá kl. 12:00-17:00 og eru allir boðnir velkomnir, þiggja léttar veitingar og njóta sýningarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.