Októberkaldi þótti bestur

Bjórhátíðin á Hólum var haldin í annað sinn laugardaginn 8. september að Hólum í Hjaltadal. Þótti hátíðin takast frábærlega en samkvæmt fréttatilkynningu frá skipuleggjendum sóttu um 80 manns hátíðina að þessu sinni, auk á annan tug sjálfboðaliða sem sáu um að hátíðin gengi smurt fyrir sig.

Helstu bjórframleiðendur landsins mættu til leiks og að þessu sinni voru heimamenn hjá Bjórsetri Íslands – Brugghús líka þátttakendur og buðu upp á Vesturfara – Gangnamannaöl og Litla ljót sem varð að Litlu Gulu hænunni á sínum bás.

Alls gátu gestir hátíðarinnar fengið að smakka rúmlega 20 tegundir af ólíkum lagerbjórum eða öli. Kosið var um besta bjórinn og fóru leikar þannig að Bruggsmiðjan Kaldi varði titil sinn frá því í fyrra með árstíðarbjórnum Októberkalda.

Í öðru sæti var Borg Brugghús með Snorra nr. 10 sem er öl úr innlendu byggi kryddað með íslensku blóðbergi úr Aðaldal. Borg Brugghús átti líka bjórinn sem lenti í þriðja sæti en það er bjór í Barley Wine stíl og er glænýr bjór úr smiðju þeirra Borgar Brugghús manna.

„Sem fyrr var keppt í kútaralli og sýndu margir góð tilþrif í brautinni. Á milli þess sem smakkað var á bjór gátu menn gætt sér á ekta Bratwurst pylsum eða kíkt á nytjamarkað Kvenfélags Hólahrepps. Bjórsetur Íslands var að sjálfsögðu opið en um 84 tegundir af bjór fylltu skápa setursins um helgina,“ segir í fréttatilkynningu.

Bjórhátíðin er haldin að undirlagi Bjórseturs Íslands sem staðsett er á Hólum og er rekið af hópi áhugamanna um bætta bjórmenningu landsmanna.

Mikil og góð stemning var á Hólum þennan dag eins og sjá má í meðfylgjandi myndasafni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir