Murielle og Jackie verða áfram á Króknum
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum hefur Knattspyrnudeild Tindastóls samið við þær stöllur, Murielle Tiernan og Jackie Altschuld, um að leika áfram með liði Tindastóls í 1. deildinni næsta sumar. Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir Tindastól en þær voru báðar frábærar nú í sumar og það verður spennandi að fylgjast með Stólastúlkum næsta sumar.
Það er þó svekkelsi að segja frá því að Vigdís Edda Friðriksdóttir ætlar að flytja sig um set og ganga í raðir Breiðabliks sem endaði í öðru sæti í efstu deild kvennaboltans í sumar. Það verður sannarlega sjónarsviptir að Vigdísi, sem gerði fimm mörk með liði Tindastóls í sumar og sýndi oft flotta takta, en full ástæða er til að óska henna til hamingju með þessa frábæru viðurkenningu á hæfileikum hennar.
Betri fréttir eru að fyrirliðinn Bryndís Rut Haraldsdóttir, Guðrún Jenný Ágústsdóttir, Bergljót Ásta Pétursdóttir, Krista Sól Nielsen og systurnar Hugrún og Eyvör Pálsdætur hafa allar endurnýjað samninga sína til eins árs.
Þá er gaman að segja frá því að Tanner Sica, sem valinn var besti leikmaður karlaliðs Tindastóls í sumar, hefur einnig endurnýjað samning sinn við Tindastól og er það vel.
Jackie spilaði 15 leiki með liði Tindastóls í sumar, þar af þrjá í Mjólkurbikarnum, og gerði í þeim níu mörk og átti slatta af fínum stoðsendingum. Hún varð reyndar fyrir því óláni að fá höfuðhögg upp úr miðju sumri og gat nánast ekkert tekið þátt í leikjum Tindastóls eftir það.
Murr ættu nú flestir að þekkja sem á annað borð fylgjast með boltanum á Króknum en hún hefur verið nær óstöðvandi uppi við mark andstæðinga Tindastóls síðustu tvö sumur. Í 35 leikjum hefur hún skorað 52 mörk auk þess sem hún hefur lagt upp slatta fyrir samherja sína. Haustið 2018 var hún valin besti leikmaðurinn í 2. deild kvenna auk þess að vera markahæst og hún endurtók þann leik í Inkasso-deildinni í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.