Mesta hlutfallslega fækkun íbúa á Norðurlandi vestra

„Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 668 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2021 til 1. maí 2022 og íbúum Hafnarfjarðarkaupstaðar fjölgaði um 273 íbúa á sama tímabili. Íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði á þessu tímabili um 59 íbúa og í Reykjanesbæ hefur fjölgað nokkuð hressilega á umræddu tímabili eða um 402 íbúa eða um 2%,“ segir í frétt a heimasíðu Þjóðskrár. Á Norðurlandi vestra fjölgaði í einu sveitarfélagi.

Á  Skra.is kemur fram að íbúum Skorradalshrepps hafi fjölgað hlutfallslega mest síðastliðna fimm mánuði eða um 18,3% þar sem fjölgaði um ellefu íbúa.

Í tveimur landshlutum hefur íbúum fækkað á síðastliðnum fimm mánuðum og reynist fækkunin hlutfallslega mest á Norðurlandi vestra eða um 0,6% sem er fækkun um 43 íbúa. Á sama tíma fjölgaði íbúum Suðurnesja um 1,7% á tímabilinu.


Tafla af vef Þjóðskrár

Alls fækkaði um 43 íbúa á Norðurlandi vestra hvar skráðir eru alls 7381 maður í landshlutanum. Munar þar mestu að 30 manns yfirgáfu Skagafjörð á tímabilinu en þar eru nú skráðir 4072, níu fóru frá Skagaströnd og búa þar 475 nú, sex fluttu frá Blönduósi hvar 923 eru skráðir með lögheimili og fjórir úr Húnavatnshreppi sem nú telur 381 íbúa. Íbúum Húnaþings vestra fjölgaði hins vegar um sex og eru íbúar þar 1236 en í Akrahreppi, þar sem 204 búa, og í Skagabyggð þar sem 90 manns teljast, stóð íbúatalan í stað.

Það er þó huggun harmi gegn að nú eru skráðir 54 fleiri á Norðurlandi vestra en var 1. des. 2019 þegar íbúar töldust vera 7327 talsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir