Meirihluti stúdenta telja heilsu sína góða á tímum COVID-19
Niðurstöður skoðanakönnunar sem mennta- og menningarmálaráðuneyti lét gera fyrr í vetur í samvinnu við Landssamband íslenskra stúdenta sýna að meirihluti stúdenta, rúmlega 54%, meti andlega heilsu sína góða eða mjög góða og að rúmlega 76% svarenda hafi ekki viljað vinna meira en þau gerðu síðasta sumar.
Í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneyti kemur fram að markmið könnunarinnar hafi verið að kortleggja aðstæður háskólanema, námsframvindu og atvinnuhorfur þeirra vegna COVID-19 faraldursins. Könnunin var lögð fyrir 2500 manna slembiúrtak allra háskólanema á Íslandi í febrúar og mars sl. og svöruðu alls 892 eða 35,7%.
Helstu niðurstöður könnunarinnar sýna að um 26,5% námsmanna hafa, fremur mikinn eða mjög mikinn áhuga á sumarnámi næsta sumar.
Tæplega 87% svarenda voru í fullu starfi eða hlutastarfi sl. sumar.
Starfshlutfall um 86% námsmanna lækkaði síðasta sumar og tæpum 64% gekk fremur vel eða mjög vel að eiga fyrir nauðsynlegum útgjöldum.
Um 31% námsmanna svara því til að þau glími ekki við neina fjárhagserfiðleika á þessum tímapunkti en 10,6% að þau glími við mjög mikla fjárhagserfiðleika.
„Sumarnám og sumarstörf nýttust gríðarlega vel í fyrra og nú er mikil eftirspurn eftir því að bjóða aftur upp á þessi úrræði. Við viljum áfram tryggja að námsmenn geti nýtt sína krafta á komandi sumri og vinnum við nú að því. Þessi könnun er mikilvægur hluti af samstarfi ráðuneytisins og LÍS og til þess fallin að ná betur utan um þennan hóp,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Samhæfingarhópur um atvinnu og menntaúrræði sem skipaður var af mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra sl. sumar vinnur áfram að því að tryggja að vinnumarkaðsúrræði og menntaframboð vinni þétt saman og stefnt er að því að fjölbreyttir valkostir verði í boði í bæði sumarnámi og sumarstörfum með vorinu. Aðgerðir sem að því snúa verða kynntar eftir páska.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.