Margrét Eir – söngkona með engan síðasta söludag

Margrét Eir í Sauðárkrókskirkju í gær. MYND: ÓAB
Margrét Eir í Sauðárkrókskirkju í gær. MYND: ÓAB

Eftir tveggja ára frekar dauflegt tímabil sökum Covid þá er ekki annað að sjá en að nú lifni yfir mannlífinu og listaspírur grænka og dafna þegar nærviðbrögð þakklátra áheyrenda næra og ylja. Í gærkvöldi mætti söngdívan Margrét Eir í Sauðárkrókskirkju og heillaði alla með sinni einstöku rödd og ekki skemmdi undirleikur Rögnvaldar Valbergssonar fyrir – bæði tvö hreint frábær.

Sauðárkrókskirkja hefur um árabil boðið gestum til kirkju að kvöldi skírdags þar sem boðið hefur verið upp á söng frábærra listamanna og í hléi hefur verið boðið upp á brauð úr Bakaríinu og vínber við altarisgöngu. Alla jafna hafa listamennirnir haft rætur í dægurlagatónlistinni og má sem dæmi um fyrri gesti kirkjunnar nefna Pál Óskar, LayLow, frændurna Stjána Gísla og Ellert, Ragnhildi Gröndal o.fl.

Margrét Eir söng níu lög í gær, öll í rólegri kantium en hvert öðru fallegra. Hún hóf dagskrána á því að syngja Kathy's Song úr tóngaldrasmiðju Simon & Garfunkel, þá dembdi hún sér í Stevie Wonder ballöðuna Blame It On The Sun. Þriðja lagið var hið síðvinsæla Songbird sem Christine McVie samdi og söng með Fleetwood Mac og síðasta lag fyrir hlé var Næturljóð úr Fjörðum eftir Böðvar Guðmundsson og sennilega eitt fallegasta lag Íslandssögunnar.

Fyrir tilviljun voru öll lögin eftir hlé ýmist tengd kvikmyndum eða söngleikjum. Fyrsta lagið þekkja flestir sem Never Enough úr myndinn The Greatest Showman en hér söng Margrét Eir íslenskan texta lagsins sem eiginmaður hennar hafði sett saman og kallaði lagið Himintungl. Því næst var það Moon River, sem var fyrst flutt af Audrey Hepburn í Breakfast at Tiffanys, og þá var söngleikurinn Jesus Christ Superstar heimsóttur og I Don't Know How To Love Him flutt af innlifun. Síðasta lag fyrir uppklapp var hið ægifagra Somewhere Out There og líkt og í öðrum lögum kvöldsins dró Margrét Eir áheyrendur með sér þar sem hún flaug með himinskautum í hnökralausum söng og tjáningu.

Eftir uppklapp tjáði séra Sigríður söngkonunni að jafnan þegar Karlakórinn Heimir hefði lokið sinni dagskrá væru alltaf í það minnsta fimm lög eftir uppklapp. Rögnvaldur og Margrét virtust nú ekki hafa gert ráð fyrir þessu en ákváðu að henda í Summertime eftir þá Gershwin bræður og bjuggu til enn einn galdurinn. Að lokum sungu allir kirkjugestir saman sálminn Hærra minn Guð til þín og röltu síðan sælir út í hlýtt en blautt vorkvöldið.

Ágæt mæting var í kirkjuna þó samkeppnin við körfuboltaleik og fleiri viðburði hafi eflaust haft áhrif. Á milli laga sagði Margrét Eir skemmtilega frá sjálfri sér og lögunum sem hún söng. Hún minntist á að hún hefði nýverið komist að því í vinnuferð til Nashville að hún hefði engan síðasta söludag sem söngkona. Það eru góðar fréttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir